23.08.1912
Sameinað þing: 7. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

105. mál, sambandsmálið

Skúli Thoroddsen:

Þegar litið er á þingsályktunartillöguna, sem hjer liggur fyrir, þá rekur maður strax augun í einn mjög tilfinnanlegan galla, sem á henni er, og er hann sá, að talað er um, að leita skuli nýrra samninga, en ekkert getið um það, í hvaða átt ætlazt er til, að samningarnir gangi. — Ráðherranum, sem þingsályktunartillagan beinist að, honum er ekki falið annað, en að leita nýrra samninga í sambandsmálinu. Honum er ekki bent á það með einu orði, hverju þingið ætlast til að hann haldi fram, hvort það vill byggja á sama grundvellinum, sem lagður var af meiri hluta þingsins 1909, og meiri hluti þingsins 1911 hjelt einnig fram, eða byggja skal á grundvellinum, sem felst í frumvarpi meiri hluta millilandanefndarinnar 1908. Eða á hann að bera fram einhverjar enn aðrar og nýjar breytingar?

Þetta tel jeg stórvægilegan galla á tillögunni, því að ekki get jeg skilið, að mönnum sje sama um það um hvað samninganna er leitað. — Það skiftir mestu, hvað Íslendingar hugsa sjer að bjóða eða vilja láta sjer nægja. Jeg get ekki hugsað mjer, að öllum sje sama um þetta, en þó skyldu menn helzt ætla, að svo væri, þegar á tillöguna er litið.

En er eigi svo, að þessu viki svo við, flutningsmenn tillögunnar, og þeir, sem þar standa að baki, hafi í raun og veru enn eigi getað komið sjer saman um neitt annað, en í henni er, þ. e. orðið ásáttir um að semja við Dani, en vitandi enn eigi sjálfir, hvað þeir vilja?

Óneitanlega var það þó það, sem á undan öllu öðru þurfti að ganga, og sjerstaklega þarf mönnum þá og að vera það ljóst, að sízt á við að fara að semja við Dani um atriði, sem enga samninga þarf um.

En svo er um atriðin, sem tekin voru fram í þingsályktunartillögunni, sem borin var fram í neðri deild fyrir skömmu, þ. e. í þingsályktunartillögunni um „ríkisrjettindi Íslands“, er viðurkend verða að teljast af löggjafarvaldinu danska, því að eigi þarf að semja um þau. Vjer þurfum t. d. ekki að leita neinna samninga um það, hvaða fána vjer viljum hafa, nje heldur um rjettinn til fiskiveiða í landhelgi vorri, eða um það, hvort vjer getum tekið að oss strandvarnirnar, hafa íslenzka konsúla erlendis o. fl., sbr. fyrgreinda þingsályktunartillögu.

Að því er alt þetta snertir, höfum vjer viðurkenningar af hálfu Dana, eður og loforð eða skuldbindingar þeirra.

Tjáir því og eigi, að skoða það, sem tilslakanir af þeirra hálfu, þótt þeir játi það að nýju rjett vorn vera, sem þeir hafa sjálfir — sbr. stöðulögin frá 2. janúar 1871 — sagt íslenzka löggjafarvaldinu einu vera viðkomandi.

Áður var sú venja, að íslenzk og dönsk löggjöf fylgdust að, þ. e. Dönum veitti auðvelt að koma því svo fyrir, meðan er Íslandsráðherrann var sami maðurinn, sem og var dómsmálaráðherra Dana, að Dönum vœri trygt jafnrjetti við Íslendinga, að því er kemur til fiskiveiða í landhelgi o. fl.

En það þarf Dönum að skiljast, að þetta stendur eigi lengur en íslenzka löggjafarvaldið vill svo vera láta, — getur svipt þá atvinnujafnrjettinu, er svo sýnist.

Þann rjett sinn byggir ísl. löggjafarvaldið þá á skýlausum viðurkenningum sjálfra þeirra, og þarf því sízt til þeirra að sækja.

Því hefur verið slegið fram, bæði hjer í þingsalnum og í einu blaði hjer í bænum, að nú væru stöðulögin orðin hjálparhellan, — slegið fram, til þess að draga úr þýðingu fyrgreindrar þingsályktunartillögu, og því í blekkjandi skyni, hvað þjóðina snertir.

Hjer er þá reynt að hagnýta sjer það, og nota til blekkingar, að Íslendingar hafa þrásinnis mótmælt því, að stöðulögin væru tilorðin á löglegan hátt, þ. e. neitað því, að danska löggjafarvaldið hafi haft heimild til þess að ákveða stjórnskipulega stöðu Íslands: en hinu hafa Íslendingar á hinn bóginn alls eigi neitað, nje getað, eða viljað neita, að í stöðulögunum felast tilboð, og viðurkenningar frá danska löggjafarvaldsins hálfu.

En það er nú einmitt það, sem almenning þarf að dylja, að meiningin er, að fara nú að semja um ýms þeirra atriða, sem engra samninga þarf, — málefnin þegar viðurkend ísl. sjermál, sbr. fáninn, strandvarnirnar, fiskiveiðarjetturinn í landhelgi vorri o. fl.

Metið svo sem tilslakanir af Dana hálfu, ef vjer fáum nú veittan einhvern part þess, sem danska löggjafarvaldið hefur áður að fullu og öllu viðurkent rjett vorn að vera.

Fyrst er því að gera Dönum það ljóst, hvað þeir hafa viðurkent sem rjett vorn, og vita síðan, hvað þeir segja um hin atriðin, er þjóðarsjálfstæði vort varða.

Þá er önnur spurningin, sem hjá oss hlýtur að vakna. Er tíminn nú hentugur til þess að leita samninga? Er hann hentugur til þess, að fá kröfum vorum framgengt?

Mjer virðist hann óheppilegur, hvort sem litið er til Dana, eða til Íslendinga.

Þegar jeg lít til íslenzku þjóðarinnar, þá lít jeg svo á, sem hún hafi alls eigi vænzt þess, að byrjað yrði nú á samningaumleitunum, að því er til sambandsmálsins kemur. Byggi jeg það á því, sem gerðist á undan kosningunum á síðastliðnu hausti, þar sem látið var þá í veðri vaka, og það þá eigi hvað sízt af heimastjórnarmönnunum, að sambandsmálinu ætluðu þeir alls ekki að hreyfa, — þorðu og eigi (þ. e. heimastjórnarmennirnir), að ganga til kosninganna á annan hátt.

En hvað skeður svo — að kosningunum um garð gengnum?

Þegar komið er rjett fram undir vor, þá er alt í einu farið að prjedika það fyrir þjóðinni, hvað hún sje orðin afskaplega þreytt, og hvað friðurinn sje góður og nauðsynlegur.

Hjer er þá farið á stað á þann hátt, að otað er fram hinu góða, hvíldinni í friðnum.

Með öðrum orðum: Reynt er að beita þjóðina undirferlistaki, til þess að geta þá betur komið fram hinu illa, — þ. e. fá hana til að gefast upp í þjóðarsjálfstæðisbaráttunni.

Eins og kunnugt er, hafði þreytutalið — sem alls ekkert átti vitanlega við að styðjast — og þó fremur ringulreiðin, sem komin var við „bræðinginn“, þau áhrif, að þingmálafundirnir, á undan aukaþinginu, voru alveg óvanalega illa sóttir, og því alls ekkert á þeim að byggja, að því er til vilja þjóðarinnar í sjálfstæðismálinu kemur.

En sje nú svo, sem „bræðingsmenn“ hafa látið í veðri vaka, að þjóðin sje orðin dauðþreytt og ljemagna, er það þá sá sem þreyttur eða uppgefinn er, sem út í bardaga á að leggja?

Er það hann, sem sigursins á von?

Nei! það er hinn óþreytti, einarði, áhugamikli, sem í bardagann á að leggja. Það er hann, sem sigursins getur vænzt.

Frá sjónarmiði þjóðarinnar er tíminn því alt annað en hentugur, væri þreytutalið á rökum bygt, eða væri það annað en það, sem varpað er fram til þess að gera þá tortryggilega, sem þjóðarsjálfstæðiskröfunum vilja fylgja fram, — láta líta svo út, sem þeir sjeu óróa- eða ófriðarseggir, sem sízt sje mark á takandi.

En slíkar blekkitilraunir ættu að hafa algagnstæð áhrif því, sem til er ætlazt.

Skiftir nú og mestu, að þjóðinni verði það sem allra fyrst ljóst, hver rjettur hennar er, — bœði sá, er þegar er viðurkendur af danska löggjafarvaldinu, þótt efndirnar hafi æ viljað verða svona og svona, og hinn rjetturinn, siðferðilegi rjetturinn til fulls þjóðarsjálfstæðis, sem ekkert þjóðerni verður nokkru sinni rjettilega svift, nje getur siðferðilega rjettilega afsalað sjer.

Tíminn því — frá þjóðarinnar sjónarmiði — sem stendur alt annað en heppilegur, að því er til samningaumleitana við Dani kemur. —

En sje nú þessu næst á það litið, hvort samningatíminn er hentugur, þegar rent er augunum til Dana, fæ jeg og eigi betur sjeð, en að sama verði niðurstaðan — þ. e. að tíminn sje afaróheppilega valinn.

Tíminn afar ósigurvænlegur.

Eða hvernig höfum vjer Íslendingar búið í haginn fyrir oss í því efni?

Í „millilandanefndinni“ stóð jeg, sem kunnugt er, uppi einn míns liðs af íslenzku nefndarmönnunum, og því síður en svo, að Dönum gæti geigur af staðið, enda mjer og, í þeirra eyru, litlum sigri spáð þá, af samnefndarmönnum mínum.

Í því efni varð nú að vísu raunin öll önnur við kosningarnar 1908.

En þó að meiri hluti alþingis 1909 tæki röggsamlega í sama strenginn, þá var framkoma ráðherra, sem þá var (hr. Björns Jónssonar) alt annað en heppileg, og á alt annan veg, en sjálfstæðisflokkurinn mundi þá kosið hafa, — framkoman hvorki einlæg nje einarðleg, en oss og fleirum sannnefnt sorgarefni, og mundi þó fremur verið hafa, ef eigi hefði sýnileg vanheilsa hans miklu um ráðið.

Þá komu nú og kosningarnar á síðastliðnu hausti — þótt þá væri því að vísu hátíðlega neitað af „heimastjórnarmönnum“, að þær snerust um sambandsmálið, eða gætu, eða ættu á nokkurn hátt að gera það —, og síðast kemur „bræðingurinn“ og þreytutalið til sögunnar.

Getur nú nokkur ímyndað sjer, að þetta alt leiði til þess, að Danir verði stórtækir, er samninga verður nú leitað?

Nei, það er öðru nær, en svo sje.

Það, sem nú ætti því í svipinn að liggja eitt fyrir, þar sem þjóðin, eða rjettara sagt meiri hluti fulltrúa hennar fást eigi til þess að fylgja fram sjálfstæðiskröfunum, eins og gert var á alþingi 1909, og að nokkru leyti og á þinginu 1911, þótt þá væri valin þingsályktunarleiðin, það er því, að nota nú tímann til að gera íslenzku þjóðinni, sem og dönsku þjóðinni og þá og jafnframt öðrum þjóðum málið sem ljósast.

Í þessu efni þarf þá og þjóð vorri að verða það sem allra ljósast, — að afar afskaplega miklum mun ljósara, en enn virðist orðið —, að hún hefur, að því er til þjóðarsjálfstæðismálsins kemur, skyldum að gegna:

a. sjálfrar sín vegna,

b. ennfremur annara þjóðerna vegna.

Að því er fyrra atriðið snertir, þ. e. að skyldur hvíli á henni, sjálfrar hennar vegna, má þjóð vorri eigi gleymast það, að þjóðarsjálfstæðið er henni, sem og hverri þjóð annari, skilyrði þess, að neytt geti krafta sinna sem þjóðerni, sem og skilyrði þess, að hver einstaklingur þjóðernisins geti það.

Óneitanlega er og hverju þjóðerni, sem og hverjum einstaklingi, einatt þýðingin þess, að vera sjer þess meðvitandi, að vera að berjast fyrir þjóðarsjálfstæðinu, sem og yfirleitt fyrir hverju góðu eða há- leitu málefni sem er, — gerir hana eða viðkomanda að mun stærri og meiri í augum sjálfs sín, sem og í annara augum.

Löngunin í þjóðarsjálfstæðið hefur því einnig sína þýðingu að því leyti, — að knýja fram persónu-sjálfstæðið.

En jafnframt því knýr baráttan þá og fram metnaðinn, þ. e. dugnaðinn í hvívetna, — löngunina til þess, að geta æ verið við fleira og fleira gott riðinn, látið æ meira og meira gott og gagnlegt af sjer leiða.

Hringlið, þ. e. „bræðingurinn“, og þá eigi síður þreytutalið, sem nú er hvorttveggja efst á baugi, hefur á hinn bóginn lamandi áhrif, og gerir menn þá og áhuga- og úrræðaminni að öðru leyti.

Sýnishorn þessa var þá og þegar deyfðarmókið og áhugaleysið, sem einkendi þingmálafundina nú á undan aukaþinginu.

Að því er til þess kemur, er jeg gat fyr, að þjóð vor hefði og skyldum að gegna, að því er til þjóðarsjálfstæðismálsins kemur, annara þjóðerna vegna, þá þarf eigi að lýsa því, hvert tap alheildinni, þ. e. öllum þjóðernum jarðarinnar í sameiningu, getur verið að því, að hvert þjóðerni, smátt eða stórt, — sem og hver einstaklingur hvers þeirra — fái ekki neytt krafta sinna sem fyllst.

Það er því rjettur allra þjóðerna, að hvert einstakt þeirra láti sjer æ sem allra annast um þjóðarsjálfstæði sitt, — eins og það einnig er þá siðfrœðilegur rjettur þess, að önnur þjóðerni láti eigi á þjóðarsjálfstæðisrjett þess ganga.

Að þjóðerni jarðarinnar hafa til þessa lítt, og tíðast alls eigi, gætt skyldu sinnar, en farið jafnvel og fara enn í dag öfugu leiðina, vitum vjer allir.

En það bætir eigi úr skák, nje gerir siðfræðilega sannleikann í þessu efni — og honum fær enginn mótmælt — að ósannleik.

Af ástæðum þeim, er nú hafa greindar verið, verð jeg að ráða til þess, að þingsályktunartillagan sje feld.

Jeg veit að vísu, að orð mín eru að þessu leyti sem rödd hrópandans í eyðimörkinni, en vonandi kemur þó sá tíminn, er þjóðin vaknar, og lætur sjer betur en nú skiljast það takmark hennar og allra þjóða, að fá — alóhindruð af erlendu valdi — fulls þjóðarsjálfstæðis notið. —