05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Frams.m. (Stefán Stefánsson):

Eg gat þess við 1. umræðu að þó frumvarpið næði ekki til annara jarða en seldra þjóðjarða, þá væri eg þó ekki á móti því, að það yrði gert víðtækara. Nú hefir nefndin um það fjallað og komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að það nái líka til seldra kirkjujarða. Eg skýrði svo glögt við 1. umr. hvað eg teldi frv. til gildis, að eg þarf ekki að fara mörgum orðum um það nú. Tilgangur þess er að auka sjálfsábúð í landinu, og geti það orðið til þess að landsstjórn nái tökum á, að koma í veg fyrir, að seldar þjóðjarðir og kirkjujarðir gangi úr sjálfsábúð um lengri tíma, þá er mikið unnið og tilgangi frv. náð í aðalatriðinu.

Í öðru lagi er til þess ætlast með frv. að reisa skorður við því að einstakar jarðir, sem hafa verulega eða sérstaka kosti, svo sem ef málmar eru í jörðu eða annað slíkt verðmæti, gangi til útlendinga og verði ruplaðar og rúnar. Þetta frumvarp er því í samræmi við fossasölulögin, sem samþykt voru fyrir nokkrum árum.

Þá gerir frv. ennfremur óbeinlinis ráðstafanir til þess að jarðir safnist ekki of mikið á einstakra manna hendur sem getur orðið skaðlegt í ýmsum tilfellum.

Eg skal geta þess að nefndin hefir viljað setja það ákvæði inn í 2. gr, að ef landssjóður vildi sinna kaupi á jörð, þá kosti hann matið. Auðvitað er þetta sjálfsagt, en nefndinni þótti þó ljósara að taka það fram.