05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Ólafur Briem:

Eg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, með því að eg er ekki alskostar samþykkur frv. Mér finst með því, vera lögð kvöð á jarðir að þurfa að bjóða þær stjórnarráðinu til kaups, þegar eigandi vill selja. Fresturinn getur orðið æði langur og gæti komið nýtt tilboð um kaup á jörðinni á meðan stjórnarráðið er að hugsa sig um og yrði eigandi þá að gera nýja fyrirspurn til stjórnarráðsins hvort það vildi sæta þessu hærra boði. Þessi kvöð gæti haft þær afleiðingar að jarðir féllu í verði, og verð jarða er ekki svo hátt nú að ástæður séu til að stuðla að því að lækka þær. Auk þess finst mér að þessi forkaupsréttur ætti að ná til allra jarða ef á annað borð á að gera slík lög, því þegar búið er að selja þjóðjörð eða kirkjujörð, þá er hún orðin eins og hver önnur einstakra manna eign, sem ekki á að leggja kvaðir á frekar öðrum eignum. í þriðja lagi álít eg litla von um að landssjóður noti þessa heimild þó frv. yrði að lögum. Það er fyrirhöfn fyrir landsstjórnina að standa í slíkum kaupum og iðulega vandamál að skera úr því hvort rétt sé að kaupa fyrir það verð sem í boði er. Af framangreindum ástæðum get eg ekki greitt atkvæði með frv. eins og það er nú úr garði gert.