05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Pétur Jónsson:

Eg er samþykkur hæstv. ráðherra (H. H.) um það, að í frumvarpið vanti heimild til að taka fé til kaupanna. Einnig er það sanngjarnt, að féð sé tekið úr ræktunar- og kirkjujarðasjóði. Árlega kemur inn í þessa sjóði fé fyrir seldar jarðir, og ætti þá ekki að vera erfitt að leysa inn jarðir er til sölu verða, enda býst eg ekki við að hér sé um mikið fé að ræða.

Það var mikil áherzla lögð á það fyrir nokkrum árum að koma sem flestum jörðum í sjálfsábúð og mun þar hafa verið farið eftir dæmi Dana. En þegar jarðirnar ganga úr sjálfsábúð og í eigu einstaklinga, þá er öll trygging úti um það, að þær komi í sjálfsábúð á ný. Ef þar á móti hið opinbera kaupir þessar jarðir jafnótt og þær ganga úr sjálfsábúð, getur það stuðlað til að þær komist í sjálfsábúð á ný. Þannig er þetta frv. í anda þjóðjarðasölulaganna.

Frumvarpið ætti eiginlega að ganga lengra og ákvæðin ættu að ná til allra jarða á landinu, en til þess þyrfti mikið fé og mikinn undirbúning. Það væri þá máske heppilegast að mynda sjóð til þess. Eg er frumv. meðmæltur sakir þeirrar hugsunar sem í því er, fremur en fyrir mikla trú á framkvæmdunum, og vona að hv. deild samþykki það.