05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Eg hefi skrifað undir frumv. með fyrirvara og gildir sá fyrirvari um þessi orð: „og eigandi óskar að selja jörðina“, — sem eg vil fella burt. Eg er samþykkur hugsuninni í frumvarpinu að veita landssjóði forgangsrétt að jörð þegar hún losnar, hvort sem eigandi vill selja eða ekki. Ef á annað borð á að fylgja þeirri stefnu, að landið eigi allar jarðir, þá vil eg láta stíga sporið í þá átt óhikað. Vil eg veita landssjóði forgangsrétt til að kaupa allar jarðir og að eigendur þeirra séu skyldir að seljalandssjóði jarðirnar þegar er þær losna úr sjálfsábúð.

Það var óheillavænlegt spor sem stígið var, þegar þjóðjarðasalan var látin laus; það var ekki rétt. Þjóðjarðasalan kom losi á jarðeignir hér og ýtti undir „speculationir“ með fasteignasölu hér á landi. Þjóðjarðasalan tryggir heldur ekki sjálfsábúðina í landinu, og sízt þá, er tímar líða fram, og teldi eg því þjóðinni langhollast, að hún yrði hér eftir sem mest takmörkuð.

Fyrir mér vakir, að ef góðar jarðir losna, þá hafi landssjóður heimild til að kaupa þær og með því koma í veg fyrir að þær lendi í hendur útlendinga. Ef gengið væri inn á þessa braut, að landssjóður kaupi allar jarðir er ganga kaupum og sölum, þá mundi að vísu skorta fé í bráðina. En nefndin leit svo á, að á næstu fjárlögum yrði veitt það fé sem til þessa þyrfti.

Eg vil benda á, að þar sem frumv. gengur ekki lengra en þetta, og aðeins er að ræða um þjóðjarðir og kirkjujarðir, þá munu fjárútlátin ekki verða svo mikil fyrst um sinn.

Eg ætla að leyfa mér, við þriðju umræðu, að koma fram með breyt.till. um að þessi orð í 1. gr., er eg áður nefndi falli burt, því að annars nær frumv. ekki tilgangi sínum, og lögin verða fánýtt pappírsgagn.