05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Eg ætla að eg gæti þess við 1. umr. þessa máls, að eg vildi gjarna að þessi forkaupsréttur næði til allra jarða á landinu. Eg hallast eindregið að þeirri skoðun, sem hefir komið fram hjá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) að landið eigi að eiga sig sjálft. Eg get reyndar ekki fylgst með h. 1. þm. Árn. (S.S.) að öllu leyti. Eg vil að landssjóður eigi forkaupsrétt á öllum jörðum, sem ganga kaupum og sölu í landinu, en ef hann notar ekki rétt sinn, þá sveitafélög eða ábúendur. Eg stóð upp aðallega til þess að láta nefndina vita, að eg muna tala mig saman við menn, sem vilja vera með mér að flytja brt. í þessa átt til 3. umr.

Eg skal benda á, að það er málvilla hér í 1. gr. Þar stendur „hvorki — eða“, á vitanlega að vera „hvorki — né“. En eg vona að þetta megi skoða sem prentvillu, er verði leiðrétt við endurskoðun, og að það sé óþarft að koma með sérstaka brt. þar að lútandi.

Í samræmi við það sem nú hefi eg sagt, mun verða farið fram á það í brt. minni, að höfð séu endaskifti á því, hverjum fyrst sé boðið, sem sé landinu fyrst. Ef nefndin vill taka upp þessa breytingu, skal eg vera henni þakklátur, en annars geri eg það sjálfur.