05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Valtýr Guðmundsson:

Eg stend upp að eins til að láta í ljósi gleði mína yfir því að þetta frumv. er framkomið, þó ófullkomið sé að mínu áliti.

Á undanförnum þingum hefi eg barist á móti þjóðjarðasölu. Eg hefi haldið því fram, að ef almennileg stjórn sæti að völdum, væri landssjóður bezti landsdrottinn. Mótbárurnar sem eg hefi haft á móti þjóðjarðasölu, hafa sannast. Það hefir vakað fyrir mér, að svo framarlega sem þjóðin ætti nokkra framtíð fyrir höndum, hlytu jarðirnar að stíga í verði án þess að eigendurnir ættu nokkurn þátt í því. Það myndi leiða af almennum framförum þjóðfélagsins, bættum samgöngum, vegagerðum, símalagningu og fleiru. Þegar jarðirnar stíga í verði, álít eg það bezt farið að þjóðfélagið njóti þess hagnaðar, sem af því verður. Það gleður mig að menn eru nú farnir að glöggva sig á þessu, og eg verð að taka undir með háttv. þm. Dal. (B. J.) og þeim öðrum, sem í þann strenginn hafa tekið, að bezt sé, að landssjóður eignist allar jarðeignir í landinu. (Lárus H. Bjarnason: Og kaupstaðarlóðir og hús líka?) Eg býst ekki við að það hafi vakað fyrir flytjendum þessa máls.

Hæstv. ráðherra benti á, að heppilegast myndi að taka það fé, sem komið hefir inn fyrir sölu þjóðjarða og verja því svo lengi sem það hrekkur, til að kaupa jarðirnar fyrir aftur.

Þetta mál, að landssjóður eignist þjóðjarðirnar, getur haft svo mikla hagfræðilega þýðingu fyrir landið. Ef landssjóður þarf að taka lán, þá eykst lánstraust hans, ef hann hefir allar jarðeignir landsins að baki sér.

Það er margt, sem þyrfti að lagfæra í frumvarpinu, en sem ekki er nein von til að verði gert til 3. umr., á þessum stutta þingtíma sem eftir er. Eg vil þess vegna ekki, að þetta verði að lögum á þessu þingi. Það þarf betri og meiri undirbúning, og væri réttast að stjórnin tæki það að sér. Það er betra að láta málið bíða betri undirbúnings, svo ekki þurfi að taka það fyrir aftur á næsta þingi.

Eg segi þetta ekki af því, að eg sé málinu mótfallinn. Þvert á móti, eg ann því af alhug og er þakklátur fyrir að því hefir verið hreyft.