17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Ráðherrann (H. H.):

Eg álít nógu langt spor stigið í tillögum nefndarinnar, þykja mér tillögur hv. 1. þm. Árn. (S. S.) ganga alt of langt, að eg ekki nefni tillögur hv. þm. Dal. (B. J.). Það er sitt hvað, að gefa stjórnarráðinu heimild til að kaupa aftur jarðir, sem það sjálft hefir selt og þannig hefir allar upplýsingar um fyrir fram, og hitt, að gefa ráðherra rétt til að kaupa hvaða jörð, landssjóði til handa, sem honum sýnist, og fyrir það verð sem hann sjálfur vill ganga að. Þær virðingargerðir, sem sala þjóðjarða til ábúenda byggist á, eru vanalega varfærar í því að lofa um of kosti og verðmæti jarðanna, og því holt að hafa þær við, ef til kæmi að kaupa jarðir þessar aftur. En virðingargerðir og lýsingar, sem gerðar eru í því skyni að selja landssjóðnum jarðeignir, gætu, ef marka má af virðingargerðum til veðsetningar í banka, í sumum tilfellum auðveldlega verið helzt til glæsilegar, og landstjórnin hefði þá ekkert til samanburðar, ef um privatjarðir er að ræða, sem ekki hafa áður verið opinber eign.

Eg vil því helst mæla með tillögum nefndarinnar.