17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Framsögum, (Stefán Stefánsson):

Eg er þakklátur hæstv. ráðh. (H. H.) fyrir undirtektir hans undir þetta mál. Hv. 1. þm. Ám. (S. S.) hefir svarað þeim, sem á móti hafa mælt.

Það gladdi mig, að hv. þm. Dal. (B. J.) er á sama máli um það, að varhugahugavert sé að jarðir safnist á einstakra manna hendur. Þar kemur okkur þó saman hvað frv. snertir. Aftur greinir okkur mjög verulega á um það, hver fyrst og fremst eigi að hafa forkaupsrétt á jörðum. Eg held hiklaust fram forkaupsrétti ábúandans, enda er sú stefna fullkomlega viðurkend með þjóðjarða- og kirkjujarðasölu lögunum, og þessari stefnu vona eg að þingið hlynni sem bezt að, en hopi ekki frá henni, þótt þeir menn er lítt þekkja til þeirra hluta, hreyft rakalitlum andmælum.

Hv. þm. Dal. (B. J.) taldi rétt að hafa mat við hver ábúandaskifti á þessum erfðalöndum landssjóðs, en eg hygg, að það mundi alloft illa borga sig, fyrir landssjóðinn, því sjálfsagt yrði hann að taka þátt í þeim kostnaði, því búast má við sífeldri breytingu á þeirri ábúð, og að líkindum einhverjum umbótum. Nei, það fyrirkomulag mundi alls ekki reynast heppilegra í framkvæmdinni, en sjálfsábúðin.