17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Eg hefi ekki beint komið fram með tillögur mínar til þess, að menn rjúki nú til að afgreiða málið, heldur til þess að menn heyrðu og sæju, hverja stefnu er réttast að taka. Það er hið mesta stefnuleysi, að vera ýmist að selja eða kaupa jarðir. Smávægilegt kák við hugsjónirnar dugir ekki, það er ekki þingmannlegt né hugsjónamanna atferli. Aðaleign manna er fólgin í máttuleik til að framleiða. Jarðareignin veitir ekki annað magn en sölumagn.

Á mat mintist eg ekki; stjórninni er vel treystandi að koma því fyrir svo að vel fari. Þetta telur einn hinn merkasti maður, Henry George, munu leiða til hinna mestu framfara. Hvergi er eins hægt að framkvæma þessa stefnu og hér. Má um það vitna til erfðafestulandanna hér í Reykjavík. Hvergi hefir hér verið lagt eins mikið í jarðir og í þau hefir verið lagt. Bændur eiga að sýna, að þeir geti treyst á mátt sinn, og þurfi ekki að eiga alt sitt upp á guð almáttugan.

Vegna þess að eg veit, að þessariari stefnu má koma hér í framkvæmd, þá hefi eg vakið máls á þessu. Og þótt menn sé nú þykkheyrðir, er trúa mín, að þjóðin muni opna hlustirnar.