17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Eggert Pálsson:

Mér finst það rétt, eins og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók fram, að það sé mikilsvarðandi mál, sem hér er verið að ræða um, og að flestir þingmenn ættu að láta það til sín taka. Hér er tveimur stefnum að slá saman, gömlu stefnunni, að landssjóður eigi að eiga sem flestar jarðeignir landsins, þar sem hann sé sá heppilegasti landsdrottinn, sem hægt sé að fá, og hinni, að sem flestar jarðir eigi að vera í sjálfsábúð, þar sem landssjóðurinn sé alt annað en heppilegur landsdrottinn. Að þeirri stefnunni hallast eg. Það er hverjum heilskygnum manni sýnilegt, að landssjóður hefir ekki verið góður landsdrottinn, að minsta kosti að því er snertir kirkjujarðir. Hafi landsetarnir viljað gera slíkum jörðum eitthvað til góða, hafa þeir fengið erfiði sitt að engu bætt. Þeir hafa leitað til prestanna, en prestarnir hafa tekjur sínar af þessum jörðum, og verður ekki með sanngirni ætlast til, að þeir láti þar af hendi til umbóta jörðum, sem landssjóðurinn, á bak við, sem eigandi, hefir neitað að taka nokkurn þátt í umbótunum. Eg held því enn fast við þá skoðun, að landssjóðurinn sé ekki góður landsdrottinn, og að framfarirnar verði meiri og öruggari á þeim jörðum, sem einstaklingar eiga, og enda þótt þeir geti ekki búið á þeim sjálfir. Getur þá eigandinn miklu fremur sýnt landsetanum tilhliðrunarsemi, og þeir samningar komist á, á milli þeirra, um umbætur á jörðinni, er báðir megi vel við una.

Hér er farið fram á í breyt.till. þeirra hátt. 1. þm. Árn. (S. S.) og háttv. þm. Dal. (B. J;), að landssjóður verði eigandi sem flestra jarða og með tímanum allra á landinu. Frá sjónarmiði þessara tveggja háttv. þingm. get eg vel skilið þessar breyt.till., þar sem eg veit hvaða stefnu þeir aðhyllast. En eg er hræddur um .að. þetta verði hættulegt í framkvæmdinni. Eins og hæstv. ráðherra (H. H.) mintist á, getur hér orðið um mjög svo ískyggilegar „spekulationir“ að ræða. Fjöldi jarða mundi verða á boðstólum handa landssjóði. Menn mundu drífa upp geysihá tilboð í jarðirnar einungis til þess að knýja landssjóð til að kaupa þær við því verði. (Bjarni Jónsson: Landssjóður er ekki skyldaður til þess). Nei, veit eg það. En úr því að þetta væri orðið að lögum, býst eg við að landsstjórninni mundi finnast að hún gerði ekki skyldu sína, ef hún neitaði að kaupa þegar fé væri fyrir hendi á annað borð. Og á hina hliðina gæti þetta freistað landsstjórnarinnar til að kaupa af vinum sínum þegar þeir þyrftu eða vildu selja jafnvel þótt verðið væri talsvert hátt. Aftur á hina hliðina finst mér það rétt, er háttv. þm. Dal. (B. J.) tók fram, að frumv., sem liggur fyrir, sé hvorki heilt né hálft, og hallast eg því helzt að því, að svo vöxnu máli, að greiða atkvæði á móti öllu saman, bæði breyt.till. og frumv. Þó að þessi stefna, er þeir háttv. 1. þm. Arn. (S. S.) og háttv. þm. Dal. (B. J.) halda fram, kunni að vera nógu góð í sjálfu sér, hygg eg að hún sé, enn sem komið er, svo lítt þroskuð hér á landi og svo lítill styrkur á bak við hana, að ekki sé ástæða til að skifta um að svo stöddu.