17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Það er út af ummælum háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) að eg stend upp. Hann sagði, að landssjóður væri ekki góður landsdrottinn hvað þjóðjarðir og kirkjujarðir snerti, sérstaklega kirkjujarðir. Eg hefi alt af álitið að landssjóður sé, ef rétt er á haldið, einmitt sá bezti landsdrottinn sem hægt sé að fá. Hitt er annað mál að hann hafi ekki alt af verið það. En orsakirnar liggja ekki í því, að landssjóður hefir átt jarðirnar; þær eru aðrar og þeirra er að leita hjá umboðsmönnum þjóðjarðanna og prestunum. Það er kunnugt um umboðsmenn þjóðjarðanna, að þegar jarðir hafa losnað, hafa þeir boðið þær upp, og jafnvel látið múta sér til þess að byggja þær. Þetta eru ranglátir ráðsmenn. Um prestana er það almannarómur frá fyrri tímum, að þeir séu manna ágjarnastir. Þeir hafa sett afgjaldið af jörðunum hærra en nokkurt vit var í Þetta getur vel hafa breyzt nú síðari árin og mér dettur ekki hug að segja neitt þessu líkt um prestinn á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Það sem kemur okkur háttv. þm. Dal. (B. J.) til að koma fram með þessar breyt.till. er það, að við höldum fram þeirri stefnu, að landssjóður sé betri landsdrottinn en nokkur maður í eðli sínu getur verið. Hvað það snertir, að landssjóður sé neyddur til að kaupa jarðirnar við geysiháu verði, þá er það misskilningur, því að hann er alls ekki skyldur til að kaupa þær fremur en hann vill. Svo hefir landstjórnin alt af nóg ráð til að leita upplýsinga um jarðirnar og það verð, sem hæfilegt er að kaupa þær fyrir. Hún hefir sína trúu þjóna og keltubörn, sýslumennina, þá hreppstjórana og svo „i Nödsfald“, eins og Danskurinn segir, ráðunautana, sem ættu að vera þessu vel kunnugir, að minsta kosti þeir, sem hafa farið víða um landið. Eg held að engin hætta sé á því, að farið yrði með landssjóðinn ver en góðu hófi gegndi. Kauprétturinn yrði því að eins notaður, ef mikilsverð jörð væri í boði, og slíkar jarðir tel eg sjálfsagt að kaupa, þó að verðið sé nokkuð hátt.