08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

65. mál, fátækralög

Flutn.m. (Matthías Ólafsson):

Herra forseti! Þetta er að vísu lítið mál, en þó engu að síður þess vert, að það nái fram að ganga. Eg skal, með leyfi hæstv. forseta lesa grein þá í fátækralögunum, sem hér er farið framá að breytt verði (77. gr).

„Ef þurfalingur fer eftir lœknisráði á sjúkrahús — annað en holdsveikraspítala — þá kostar framfærslusveit hans dvöl hans þar, lyf og læknishjálp, alt að 200 kr. á ári. Það, sem fram yfir er 200 kr., greiðist úr landssjóði, þó aldrei nema fyrir tvo þurfalinga í einu úr sama sveitarfélagi eða bæjarfélagi“.

Hér er nú farið fram á það, að feld séu aftan af þessari gr. orðin: „Þó aldrei nema fyrir tvo þurfalinga í einu úr sama sveitarfélagi eða bæjarfélagi“. Með öðrum orðum farið fram á það, að að því stærra böl, því þyngri byrði, sem sveitarfélagið hefir að bera, þess meiri þátt taki landssjóður í því, að létta undir með því. Það er undarlegt, að setja það inn í lögin, að hann skuli einmitt hætta að styrkja sveitafélögin, ef þau eiga verulega bágt, og það er óneitanlega gert með þessari gr. eins og hún er nú.

Þetta frumv. er sérstaklega fram komið fyrir ósk Auðkúluhrepps vestra. Þessi hreppur á nú 2 sjúklinga á Kleppsspítala, og auk þess eina 4 á sjúkraskýlum vestra. Þessi hreppur er mjög illa stæður, enda mun það sjaldgæft, að eitt sveitarfélag ekki stærra, þurfi að kosta jafnmarga sjúklinga, og þó mun enn vera einn sjúklingur, sem þeim hefir orðið ókleyft að koma á sjúkrahús, sökum fjárskorts. Mismunur er mikill á efnahag manna þarna um slóðir, sárfáir menn mjög vel stæðir, hitt alt fátæklingar. Svo hefir það bæzt ofan á, að helzta stórbýlið þar í sveit, Lokinhamrar, sem margir kannast við, er nú lagt í eyði, svo að þaðan gelst ekkert til sveitarþarfa. Eg vona nú að þetta eina dæmi nægi til þess, að hv. þm. sjái hve sanngjarnt það er, að nema umrætt ákvæði úr lögum. Það ætti einmitt að vera svo, að því fleiri sjúklinga sem sveitarfélag þyrfti að kosta, því fremur væri því hjálpað.