02.08.1912
Efri deild: 14. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

22. mál, veiði í Drangey

Jósef Björnsson:

Frumv. þetta kom hjer fram vegna þess, að veiði sú, sem nú er stunduð í Drangey, hefur verið skemd með óleyfilegum veiðiaðferðum. En sýslumaður gat ekki komið í veg fyrir þær, því lögfulla heimild vantar fyrir reglugerð og samþykt, þar sem gert er ráð fyrir sektum. — Mál þetta geta þingmenn kynt sjer af skjölum, sem frammi liggja á lestrarsalnum, og útdrætti úr sýslufundargerð. Skemdir þær, sem hjer er um að ræða, eru tvenskonar. Það er sannað orðið, að bæði hefur verið notuð óleyfileg veiðiaðferð við fuglaveiði, og farið hefur fram óleyfileg eggjataka, eftir því, sem núgildandi reglugerð mælir fyrir. En eins og nú er, þá hefir sýslumaður ekki þótzt geta beitt sektunum vegna vöntunar á löggiltri reglugerð um veiðina, sem hafi inni að halda sektarákvæði gegn brotum á henni. Jeg vona, að háttv. deild taki svo vel í þetta mál, að það nái fram að ganga.

Samþ., að málið gengi til 2. umr. með öllum atkv.

2. umr. á 16. fundi, 5. ágúst, (109).