14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

65. mál, fátækralög

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Í rauninni þarf eg ekki að svara háttv. þm. Vestm. (J. M.) með því að hv. 1. þm. N. Múl. (Jóh. Jóh.) hefir gert það. Það er alveg rétt, að það er að skjóta fram hjá markinu að brigzla hreppsnefnduin um, að þær séu ómagar á landssjóði og fylli sjúkrahúsin á landssjóðs kostnað. Það skeyti hitti læknana, af því að þeir hafa rétt til að heimta að sjúklingarnir séu lagðir inn á sjúkrahús En eg álít ekkert á móti, að þeir hafi þennan rétt; eg vildi bara óska, að þeir gætu skipað þinginu að borga. Eg tel ástæðulaust að brigzla læknum um, að þeir að ófyrirsynju baki landinu kostnað, en annars býst eg við því, að hv. þm. Snæf. (H. St.) standi upp til að bera af þeim þessi ámæli. Enda er þessi kostnaður ekki enn orðinn svo óttalegur. Við verðum að gæta að því, að hér er við illan óvin að stríða þar sem tæringin er. Að ósi skal á stemma. — Því meir sem lagt er fram í byrjun til að stemma stigu fyrir sjúkdóminum, því fyr verður honum útrýmt.