14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Framsögum. Benedikt Sveinsson):

Það mun ekki þykja vænlegt að bera upp frv. um sölu á kirkjujörð eftir þessar umræður hér í kvöld. En eg vona að háttv. þingdeild hafi það fast í huga, meðan þjóðjarðasölulög eru í gildi, að láta þau ganga jafnt yfir alla menn. í því trausti hefi eg borið þetta frv. fram.

Eg bar svipað frv. fram hér í deildinni í fyrra. Nefndin, sem þá hafði það til athugunar, var öll á því máli, að rétt væri að selja jörðina og þóttist ekki geta tekið til greina mótbáru þá, sem komið hafði fram frá sýslunefnd móti sölunni.

Í 2. gr. laga um sölu kirkjujarða er það tekið fram, að ef jörð er hentug til almenningsnota að áliti sýslunefndar, þá er landstjórninni óheimilt að selja hana nema eftir sérstöku lagaboði. Nú áleit nefndin í fyrra, eins og tekið er fram í nefndarálitinu, ekkert því til fyrirstöðu að selja jörðina, en með því að hún hafði ekki nægileg skjöl við að styðjast, var málinu vísað til landsstjórnarinnar. Nú hefir landstjórnin álitið, að hún hefði ekki heimild til að selja jörðina, vegna mótbáru sýslunefndarinnar, nema með sérstöku lagaboði.

Í annan stað er prófastur ekki ánægður með mat, sem gert var í fyrra haust, þar sem jörðin er metin á 7.200 kr., en hann álítur hæfilegt verð 4.000 kr. Þessi verðmunur liggur í því, að prófastur hefir gert mjög miklar jarðabætur og varið til þeirra nálægt 3.500 kr. Þegar þær eru metnar með og lagðar ofan á, kemur út svipað verð og virðingarmennirnir hafa ákveðið. Af þessu er ljóst, að virðingarmennirnir hafa metið með jarðabætur prófasts. Nú er það tekið til í lögum um sölu kirkjujarða, að jarðabætur, sem ábúandi hefir gert, skuli ekki meta með. En eins og tekið er fram í nefndarálitinu, er virðingarmönnum ekki gefandi sök á þessu, því að í skipunarbréfi sýslumanns er ekki tekið fram, að þeir eigi að meta jörðina samkv. lögum um sölu kirkjujarða, heldur er þeim boðið að meta hana með öllum mannvirkjum.

Eg get ekki annað séð, en að það megi skaplegt heita, að jörðin sé seld á 4.000 kr. Nefndin áleit þó réttara að ákveða ekki verðið, en setja lágmark 4.000 kr. og fara svo eftir því, sem óvilhallir dómkvaddir menn vildu meta jörðina, og sé hún að öðru leyti metin samkvæmt lögum um sölu kirkjujarða.

Þessi jörð á ekki að verða prestssetur til frambúðar, heldur Skinnastaðir, svo að ekki getur það staðið fyrir sölunni. Býst eg því við, að háttv. deild muni vilja fallast á það með nefndinni, að þessi maður verði sömu laga að njótandi sem svo margir aðrir, þar á meðal nágrannar hans í Þingeyrarsýslu, og greiði atkvæði með því, að málið gangi til 3. umræðu.