14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Pétur Jónsson:

Það er nýbúið að leiða athygli að því, hver hafi verið tilgangur þjóðjarðasölulaganna, og hver hann hljóti að vera. Eg hygg að hann geti aldrei verið né eigi að vera sá, að landssjóður selji til þess að losa sig við jarðirnar og fá inn verð fyrir þær, heldur er það gert til þess að þær komist í hendur leiguliðanna eða sveitarfélaga og annara stofnana, sem þarf þær til almenningsnota, bygt á því, að það sé heill og hagur fyrir landið, að sem flestir eignist ábýli sitt. Enginn hefir eins mikla hvöt til þess að fara vel með ábýli sitt eins og sá, sem sjálfur á það. En ef þetta er svo, þá er það líka óheppilegt þegar jarðir, sem eru leigujarðir, komast í hendur einstaklinga. Þá er horfin tryggingin og alveg undir hælinn lagt, hvort ábúandinn nokkurn tíma eignast jörðina. Og eitt er víst, þá verður sízt spornað við því, að jarðir komist í hendur útlendinga. Menn segja nú, að hér sé ekki um slíkt að ræða, heldur sé þessi maður, sem vill fá jörðina, ábúandi á henni. Sé svo, þá þarf ekki sérstök lög til þess að selja honum hana, en þurfi að fara að gera þær undantekningar, að leita til Alþingis til þess að fá jarðir keyptar með sérstöku lagaboði, þá á það að vera til einhverra stofnana eða félaga, en ekki til einstaklinga. Enginn einstaklingur má fá kauprétt á opinberri eign, samkvæmt öllum anda jarðasölulaganna, nema hann sé ábúandi á henni.

Eg veit að vísu, að löggjafarvaldið getur leyft sér alla hluti, og þá líka að brjóta það með annari hendinni, sem það þykist vera að byggja með hinni, en því vil eg ekki fylgja. Eg álít að þessu máli eigi þingið að víkja frá sér annaðhvort til stjórnarinnar, eða öðruvísi, því að verði jörðin ekki seld eftir lögunum um sölu kirkjujarða, þá á ekki að selja hana. Þegar á að selja leigujörð, þá á það að vera sá leiguliði, sem öll útsjón er á, að haldi áfram að búa á jörðinni, eða þó að minsta kosti getur gert það, en nú er þessi maður prestur, sem nýlega hefir fengið prestakall, og það gerir það að verkum, að hann á að sitja á alt annari iörð, og það er ekki meining laganna, sem eg nefndi, að fara að selja jarðir, sízt góðar jarðir, til þess að þær verði lagðar undir önnur býli. Í fyrra var þessu máli vísað til stjórnarinnar af sömu ástæðum og eg hefi nú talið, og þá leit þó ekki út fyrir annað, en að ábúandinn mundi sitja á jörðinni, svo að þá þótti mér ekki ósennilegt, að hann fengi hana, ef það væri heimilt fyrir lögunum. En nú virðast mér 2 ástæður á móti því. Það er rangt að grípa fram fyrir hendur laganna og selja öðrum jarðir en þeim, sem trygging er fyrir að sitji þær áfram.