14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Jóhannes Jóhannesson:

Í sambandi við það, sem bv. framsm. sagði, vil eg geta þess, að eg er á því, að maðurinn, sem hér um að ræða, sé löglegur ábúandi á jörðinni, og eg veit ekki betur en að hann samkv. prestalaunalögunum megi sitja þar sína tíð meðan hann lifir. Það liggur fyrir skýrsla um það, að hann hefir varið 3.500 kr. jörðinni til endurbóta nú undanfarið, eftir að kirkjustjórnin hafði látið það álit sitt í ljósi við hann, að ekkert myndi því til fyrirstöðu, að hann fengi jörðina keypta, og að meina honum nú að kaupa hana við sanngjörnu verði væri sama sem að taka þetta fé af honum og leggja það til kirkjujarðasjóðs, og það getur þingið ekki verið þekt fyrir. Eg vona því að þetta frv. verði samþykt.