13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

73. mál, almanök

Bjarni Jónsson:

Eg get tekið undir það með hv. þm. N.-Þing. (B Sv.) að eg er sannfærður um, að Hafnarháskóli fer aldrei að koma fram með skaðabótakröfu á hendur okkur, þótt við tökum af honum þetta einkaleyfi. Eg held að þeir, sem telja það vafasamt að við getum tekið einkaleyfið og álíta breytingu á þar að lútandi lögum ekki einhlíta, byggi það á rangri skoðun. Það mesta, sem gert yrði, gæti ekki orðið annað en það, að leyfið yrði metið til peninga — og mundum við þá ekki skaðast á því að taka það, því að ósennilegt er að almanak, sem vér gæfum út sjálfir seldist ver en það, sem nú er gefið út. Það er því vel tilvinnandi, að borga eitthvað fyrir leyfið. Þm. Ak. (G. G.) tekur fram í fyrir mér, og vill véfengja orð mín. Er nú langt síðan hann kvað á þingi 1893: „Það er svo blóðlaus hugmynd háskólinn, að hann mun aldrei verða oss að neinu liði“, en nú er sú blóðlausa hugsun framkvæmd og er rétt að hlynna að þessari stofnun eftir megni. Enda býst eg við, að enginn mundi hreyfa hönd eða fót gegn þessu tjóni háskólans danska, og yrði ekki meira en það, að ef til vill einn maður misti einar 100 kr. sem hann fær fyrir að líta yfir málið á almanakinu. Eg held því, að háttv. þm. geti með góðri samvizku greitt frv. atkv.