13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

73. mál, almanök

Flutningsm. (Benedikt Sveinsson):

Eins og menn sjá fer þetta stutta frv. fram á það, að afnema einkarétt þann, sem háskólanum í Kaupmannahöfn er veittur til að gefa út almanök hér á landi, VII. kafla tilsk. 3 febr. 1836. Þessi tilsk. er frá einveldistímanum og úrelt orðin. Því síður er nú rétt að veita háskóla Dana þenna einkarétt hér, þar sem vér nú höfum fengið háskóla alíslenzkan. Ákvæðið er líka úrelt að því leyti, að hingað flytjast nú þúsundum saman þýzk og ensk almanök, en þó hefir það ekki verið átalið. Aftur hefir hér verið bönnuð sala íslenzks almanaks, sem gefið er út í Vesturheimi og er heldur fróðlegt rit. Mér er kunnugt um það, að Þjóðvinafélagið mun vilja takast á hendur að gefa út almanakið. Eg hefi og talað við mann, sem er fús til að annast útgáfu þess og er vel fær til þess. (Lárus H. Bjarnason: Hver er það?) Það er dr. Ólafur Daníelsson.

Það getur verið, að sumum þyki það smávægilegt að koma fram með frv. eins og þetta, en eg get ekki skilið að þingið standi sig við annað en samþykkja það.

Hér er ekki um annað að tala en að sníða burtu botnlanga úr löggjöf vorri, eins og hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) komst réttilega að orði um annað frv., sem lá fyrir seinasta þingi.

Eg vonast því til, að hv. deild kannist við, að þetta frv. horfi til lagfæringar og greiði því atkvæði til 2. umr.