13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

79. mál, bannlögin, viðauki

Lárus H. Bjarnason:

Eg get ekki verið samdóma háttv. flutningsm. (G. G.) um, að sjálfsagt sé að hafa engar umræður um þetta mál, og að engin nefnd verði sett í það. Eins og frv. er, gefur það fullkomlega tilefni til athugunar þó að stutt sé. Verði það samþykt, gefur það stjórninni heimild til að panta vínföng handa hverjum sem hún vill veita, foringjunum af danska, enska og franska herskipinu o. s. frv. allar götur til 1. jan. 1915. Með öðrum orðum, stjórnin má panta vinföng handa svo mörgum sem hún vill, og svo mikið sem hún vill því eru engin takmörk sett. Þetta er alveg óþarft, því að jeg veit ekki betur en að nóg vín sé til í landinu og vafalaust boðleg hverjum sem er. Hæstv. ráðherra brosir, vill hann segja mér, hvað rausnarmaður eins og hann er mundi láta sér nægja. Eg skil það vel, að þeir sem vilja koma bannlögunum sem fyrst fyrir kattarnef, séu fúsir til að samþykkja þetta frumv. En því hefði eg aldrei trúað, að gamall templari mundi verða til þess að bera það fram. Því að þetta er að miklu leyti afnám bannlaganna. Eg sé ekki að hér þurfi að vinda svo bráðan bug að, að ekki megi setja nefnd í málið, og ef aðrir vilja ekki stinga upp á því, vil eg leyfa mér að stinga upp á 3 manna nefnd.