17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

87. mál, strandferðabátar

Björn Kristjánsson:

Mig furðar á því hversu daufir þingmenn eru að tala í þessu máli. Það er þó sannarlega ekkert smáræði ef landið á að verða strandferðalaust um heilt ár. Það verða talin tíðindi um landið, ef það eitt fréttist af þessu þingi, að það hafi lagt 250 þús. kr. skatt á landsmenn og kipt burtu samgöngunum kringum landið! Það væri sannarlega að gefa þjóðinni sitt utan undir hvort, löðrunga hana.

Það er skylda þingsins að ganga svo frá þessu máli, að þjóðin bíði ekki skaða af því að Thorefélagið hættir strandferðunum, og eg fyrir mitt leyti sé ekki, að það verði gert með neinu öðru móti en að samþykkja tillögur minni hluta nefndarinnar. Fyrverandi stjórn hefir, eftir því sem stendur í nefndarálitinu, pantað mann frá sameinaðafélaginu til að semja við, en árangur af því var ekki betri en svo, að hann skýrði frá því, að félagið vildi ekki með neinu móti gera neinn samning um strandferðirnar. Samt heyrðist mér, á ræðu hv. ráðherra (H. H.), að komið gæti til mála að semja við þetta félag. Þetta er annar löðrungur, ef stjórnin fer að semja við þetta félag eftir að þingið er búið að leita til þess og fá afsvar og sá löðrungur kemur frá stjórninni til þingsins. Við munum það, að árið 1909 bauð félagið aðeins 24 ferðir milli landa fyrir sama styrk og Thorefélagið. Fleiri ferðir áleit „Hið sameinaða“ eigi nauðsynlegar fyrir landið. Það varð þó úr, að samið var við 2 félög um 44 ferðir. Sameinaðafélagið áleit að ekki væri þörf á meiru en 24 ferðum, en reynslan hefir sýnt að næg þörf var fyrir 44 ferðir og reyndar miklu fleiri og þær hafa borgað sig vel. Að semja við slíkt félag væri sama sem að leggja hömlur á allar framfarir landsins. Mér virðist eina úrræðið vera að stjórnin leigi báta Thorefélagsins, ef þeir fást leigðir, en kaupi þá að öðrum kosti. Strandferðunum ætti svo að haga þannig, að annar báturinn færi með vöruflutning í hægðum sínum á sem flestar hafnir kringum landið, en hinn færi stöðugar hringferðir með póst og farþega.

Það kemst aldrei gott lag á strandferðirnar fyr en þetta tvent er greint í sundur, og það hefir landið á valdi sínu að gera ef það á bátana. Það er áreiðanlegt, að það yrði stórt högg á allar framfarir landsins, ef samgöngurnar kringum landið hættu. Síðan strandferðirnar byrjuðu, hefir eins og kunnugt er verzlunin dregist meir og meir á einn stað, hingað til Rvíkur, og það á hún að gera. Hún á að dragast hingað öll á endanum, því að þá, þegar kornvara vor er send beint hingað frá framleiðslustöðunum, er hægt að selja hana í stórkaupum við sama verði og í nærliggjandi löndum. Og þessi miðpunktur hér í Reykjavík fyrir stórsöluverzlun getur því að eins smástækkað, að strandferðirnar haldist og gott lag sé á þeim.

Strandferðirnar hafa stuðlað að því, að vara bænda hefir stígið í verði, en það hefir hins vegar orðið til þess, að þeir hafa tekið dýrara vinnufólk, vanið það á hærra kaup, og hvar standa þeir þá, ef strandferðunum er kipt í burtu. Nei, það má engin hindrun koma á samgöngurnar; þær verða að aukast og batna smátt og smátt. En það álít eg, eins og eg sagði áðan, neyðarúrræði að semja við félag, sem hefir látið í ljósi, að það vilji ekki við okkur líta. Og ef það vill við okkur semja, þá verður það sennilega með einhverjum óaðgengilegum kostum, t. d. með því skilyrði, að þeim verði leyft að taka hærra farþegagjald af útlendingum en innlendum mönnum. Slíkt tíðkast hvergi með nokkurri þjóð í heimi.

Mín tillaga er því í samræmi við till. minni hlutans, að bátarnir séu leigðir ef það fæst, en keyptir ella. Útgerðinni má koma fyrir á ódýran hátt, þar sem Thorefélagið heldur áfram millilandaferðunum, og hlýtur því að hafa afgreiðslu hér framvegis. Það mætti því fela sömu mönnum að hafa á hendi afgreiðslu fyrir bátana, bæði hér og víða kringum land.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að það gæti reynst oss hagkvæmara að kaupa Dieselmótorskip. Það getur verið, en sú uppgötvun er enn þá lítið reynd, og hér brýtur nauðsyn lög. Eg vil taka það fram aftur, að þingið getur ekki, sóma síns vegna, gert hvorutveggja, að leggja á þjóðina 250 þús. kr. skatt og kippa burtu strandferðunum.