17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

87. mál, strandferðabátar

Framsögumaður meirihlutans (Guðlaugur Guðmundsson):

Það er kannske dálítið óviðkunnanlegt, að eg sitji þegjandi hjá þessum umræðum, þar sem eg á þó að heita framsögum. meiri hlutans í þessu máli. En það hefir verið gerð glögg grein fyrir afstöðu meiri hlutans, svo að eg hefi í rauninni engu þar við að að bæta.

Fjárhagurinn leyfir trauðlega að leggja í svona fyrirtæki. Hæstv. ráðherra (H. H.) tók það fram, að það væri mjög vafasamt, hvort lán fengist til þess. Auk þess er það svo um þessar smærri lántökur hér og þar, að þær spilla meira fyrir lánstrausti landsins heldur eitt stórt lán á einum stað.

Eigi að síður mun eg ekki hafa á móti að hleypa málinu til 2. umr.; það getur lagast í meðferðinni. Eg er í raun og veru samdóma minni hlutanum í því, að rétt sé að landið hætti að veita styrk útlendum félögum til að halda uppi samgöngum hjá okkur.

Ef landsmenn sjálfir, sem eiga að hafa gagn af ferðunum, hvorki geta né vilja koma á félagsskap til að halda þeim uppi, þá trúi eg því ekki, að þörfin sé svo brýn sem af er látið. Menn hafa peninga til annara hluta, sem ekki er látið eins mikið af. Það er auðvitað öldungis rétt, að það er vanhyggja að fleygja tugum þúsunda kr. árlega út úr landinu til þessara ferða, sem við ættum að annast sjálfir — það er fjárhagsleg blóðtaka. Eg er ekki í minsta vafa um það, ef innlent félag kæmi upp, þá gæti það tekið að sér ferðirnar með miklu meiri von um hagnað heldur en útlendu félögin. Reynslan hefir sýnt að að skip með íslenzkum skipstjóra og íslenzkri skipshöfn hefir haft minni skaða af ferðunum heldur en skip með útlendum mönnum. Enda er vikið að þessu í bréfi Thorefélagsins.

Jafn vel þó það ætti að varða því að samgöngur féllu niður eitt ár, tel eg það engan voða, ef við gætum þá snúið af þeirri braut, sem farin hefir verið hingað til, og hættum að styrkja útlend félög.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) vék að því í sinni ræðu, að ekki væri óhugsandi að landssjóður gæti orðið þátttakandi í svona félagsskap. Eg er ekki ósamdóma honum í þessu; eg tel það hvorki rangt né óhyggilegt, að landssjóður legði til sinn hluta af hlutafénu til að koma fyrirtækinu á stað, gegn því að fá sama rétt og aðrir til að kjósa stjórn og sjá hag sínum borgið að öðru leyti.

Eg hefi ekkert á móti því að þetta mál gangi til 2. umr. ef ske kynni, að eitthvað mætti lagfæra í frv., svo málið yrði betur undirbúið undir framtíðina heldur en nú er. En eg býst ekki við að það geti komið til nota 1913.

Eg skal að síðustu taka það fram gagnvart háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) að það liggur fyrir í bréfi Thorefélagsins, sem hér er prentað, tilboð um kaup á „Austra“ og „Vestra“, og jafn vel á þriðja skipinu, með betri kjörum heldur en fáanleg eru annarsstaðar.