17.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

87. mál, strandferðabátar

Framsögum. minni hlutans (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg skal vera stuttorður, því það er orðið áliðið fundartímans.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) hét því fram að tíminn væri óhenugur. Eg veit ekki í hverju það liggur. Eg held að nú sé einmitt sá heppilegasti tími til þessara hluta, sem fyrir getur komið á einum mannsaldri. Það liggur fyrir tilboð frá Thorefélaginu um leigu eða kaup á bátunum „Austra“ og „Vestra“ og eiga þeir að kosta 169 þús. hvor. Hins vegar er það vitanlegt að félagið hefir fengið 10.000 pd. Sterl. tilboð í hvorn bát. Landssjóður getur því öruggur keypt bátana í dag upp á það, að hann gæti selt þá aftur á morgun, ef vildi, með ábata.

Þá sagði hinn sami háttv. þm. (M. Ól.) að bátarnir væru kolafrekir. Þm. er þessu ekki kunnugur, þeir eru þvert á móti mjög ókolafrekir. Skipstjórarnir á bátunum hafa sagt mér hvað þeir brúka af kolum á dag með venjulegri ferð, og eins hvað mikið þeir brúka þegar hratt er haft við.

Hann hélt því fram, að bátarnir væru of litlir. En þeir eru ekki ætlaðir til vöruflutninga, heldur aðallega til mannflutninga. Það er ekki lengra síðan en í dag að við áttum tal saman um þessa báta inni í einu nefndarherbergi nokkrir þingmenn, meðal annara háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.). Þá hélt hann því fram, að bátana mætti nota til að senda með ullarfarm til Ameríku. Þá fanst honum þeir ekki of litlir, og þeir hafa varla minkað síðan.

Þá sagði hann að fjárhagurinn gerði það ókleift að kaupa bátana. Eg held nú ekki. Það lítur bráðum ekki eins illa út með fjárhaginn eins og haldið er. Í fyrsta lagi eru lotterílögin. Þau munu gefa af sér nálægt 200.000 kr. tekjur á ári. Til þess eru svo miklar líkur, að stappar næri fullri vissu, að þau lög verði samþykt í Ed. áður en Ceres fer út, og getum við þá átt vísa von á að lotteríið byrji þegar 1. jan. næsta ár, og koma þau þá til með að gefa tekjur þegar á næsta ári. Í öðru lagi er alt útlit fyrir að frv. til laga um farmgjald af aðfluttri vöru verði samþykt á þessu þingi, og hvað sem annars má um það segja, þá mundi það sömuleiðis hafa álitlegan tekjuauka fyrir landssjóð í för með sér. Í þriðja lagi hefi eg í dag lesið í málgagni stjórnarinnar að landssjóður eigi upp undir 1 miljón kr. í frímerkjum. Það er reyndar ekki ritstjórnargrein, en þetta stendur þar ómótmælt af ritstjórninni.

Þegar litið er á alt þetta, sýnist fjárhagurinn ekki vera svo slæmur að ástæða sé til að barma sér og þora ekki að leggja út í það fyrirtæki sem hér er um að ræða.

Að endingu skal eg benda á það, að miklu meiri líkur eru til að bátarnir beri sig, ef þeir eru gerðir út héðan heldur en frá Kaupmannahöfn.