22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Flutn.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Það er ljóst, að eitthvað þarf að gera til þess að varna þeirri einokun, sem á okkur er lögð af hinu danska steinolíufélagi. Þess vegna er hér farið fram á það að landstjórnin fái þessa heimild, ef til þarf að taka og hún sér sér fært að nota hana. Má vera að ekki komi til þess og að félagið láti undan, og þá tekur það ekki lengra.

Eins og nú er ástatt, er nauðsynlegt ákvæðið í 2. gr. um það, að meðan stjórnin hefir þetta með höndum, megi enginn annar flytja steinolíu hingað til lands, því að annars mætti ef til vill búast við því, að einokunarfélagið varpaði hingað birgðum af henni og seldi fyrir sama sem ekkert til þess að buga samkepni landssjóðs, það er nógu ríkt og gæti látið oss borga herkostnaðinn eftir á.

Ef til þess kæmi, að landið tæki að sér steinolíuverzlunina, þá mundi ekki þurfa á öllu meira rekstrarfé að halda, en um 450 þús. kr. á ári, og ekki mundi þurfa að halda á því fé öllu í einu. Svo heyri eg að bankarnir muni vilja veita hjálp sína til þessa, ef á lægi, enda yrði lánstíminn ekki langur, þar eð alt af seldist jafnóðum.

Ein brtill. við frv. er á ferðinni, en kemur ekki fram fyr en við 2. umr. Hún er um það, að lögin skuli ganga í gildi nú þegar og gilda til ársloka 1913.

Eg skal taka það fram, að á skrifstofunni hefir slæðst inn í frv. meinleg prentvilla, sakamál í staðinn fyrir lögreglumál.

Eg býst við að öllum hv. þingm. sé það ljóst, hve óþolandi er yfirgangur sá og einokun steinolíufélags Rockefellers, sem nú girðir um löndin öllum megin, eins og Miðgarðsormurinn.1)

*) Hér vantar niðurlag ræðunnar, sem þingskrifararnir hafa týnt og aldrei skilað ú lestrarsalinn. Eg treysti mér ekki nú til að muna það rétt.

J. Ó.