22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Ráðherrann (H. H.):

Eg hefi heyrt ýmsa segja að þetta frv. sé betra en frv. það sem lá fyrir í gær um sama efni, en þetta er hvorki rétt né vel athugað. Eg ætla ekki að fara langt út í málið, en aðeins benda á eitt einstakt atriði.

Það virðist liggja í augum uppi, að svo framarlega sem hið opinbera færist það í fang, að banna frjálsan innflutning óhjákvæmilegrar nauðsynjavöru og taka sjálft einkarétt til vörunnar, þá hlýtur réttinum að fylgja rík skylda til þess að sjá um, að varan sé jafnan fáanleg og jafnan eins auðfáanleg hvervetna á landinu, eftir sem áður. Í frv., sem hér var sálgað í gær, var séð fyrir þessu sem unt er, með því að leggja félagi því, sem semja mætti við, ríkar og ákveðnar skyldur á herðar í þessu tilliti, að viðlagðri þungri ábyrgð og réttindamissi. En í þessu frv. er þessu atriði enginn gaumur gefinn.

Þá er það og sýnilegt, að ekki er hægt að neita öllum um olíu, þó að þeir hafi ef til vill ekki peninga handbæra í svipinn og mundi þetta leiða af sér, að landið, ef það tæki að sér einkasöluna, mundi þurfa að gangast undir útlán til kaupenda og þar með allmikla verzlunarrisíkó og hefir það æfinlega töluverðan kostnað í för með sér og getur í mörgum tilfellum orsakað ekki svo lítið tap.