22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Flutn.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Það er forn málsháttur, að „argur er sá sem engu verst“, og mætti segja það um okkur Íslendinga, ef við látum bjóða okkur aðferð þá, er D. D. P. A. ætlar nú að beita við okkur, án þess að malda í móinn til þess að firra okkur þeim vandræðum.

Allir hafa frétt hækkunina á steinolíuverðinu síðustu dagana — fimm krónur á fatinu, og sögð væntanleg innan skamms ný hækkun, fimm — sjö krónur (sumir segja 10 kr.). Það er von að fólkinu ægi þetta, og von að Alþingi hafi gert málið að umhugsunarefni, hvort ekkert sé auðið að gera af löggjafarvaldsins hálfu til að varðveita þjóðina fyrir hinum banvænu faðmlögum þessa risa blekfisks, sem nú teygir angana í flest lönd og lifir og fitnar á að blóðsjúga þjóðirnar.

Það er vitanlegt, að þessi hækkun, sem nú er orðin 12 krónur í Danmörku og milli 6 og 7 mörk í Hamborg, stafar væntanlega eingöngu af fégræðgi steinolíufélagsins. Þó að hér sé borin fyrir hækkun á farmgjaldi með skipum, þá eru það hrein ósannindi og fyrirsláttur. Vitaskuld hefir farmgjald hækkað, en ekki neitt í áttina sem þessu nemur, enda er farmgjaldið alls á olíu frá New York til Reykjavíkur að eins liðugar þrjár kr. á fat.

Fleiri ástæður hafa heyrst fyrir hækkun þessari, hvað sem þar í er hæft. Ein sú líklegasta er sú, að félagið sé með þessu að láta Norðurálfuþjóðirnar, þær sem það hefir náð einokun hjá, borga kostnaðinn fyrir húsbónda sinn, Rockefeller gamla, sem nýlega var í hæstarétti Bandaríkjanna dæmdur í 40 miljóna dollara sekt, auk málskostnaðar fyrir óleyfileg einokunarsamtök í Bandaríkjunum. Því að Bandaríkin standa það framar öðrum ríkjum, þau hafa lög í landi hjá sér, þau er banna einstaklingum og félögum að hafa einokunarfélagsskap til samninga-samtaka um að hindra frjálsa verzlunarsamkepni og hækka vöruverð fram úr eðlilegu hófi. Steinolíufélagið danska, sem kallar sig D. D. P. A. og Danir lesa úr: Det danske Petroleums Aktieselskab, en Íslendingar lesa úr: „Danskur djöfull Petroleums andskoti“. er ekki annað en einn angi af einokunar-samsteypufélagi Rockefellers. Það hefir gert samninga við flest-alla íslenzka kaupmenn, þá er skuldbinda kaupmennina til að kaupa ekki steinolíuna af neinum öðrum en félaginu. Fyrst mun það hafa byrjað á árlöngum samningi; svo fór það að gera samninga til fimm ára og síðan mun það hafa farið að smálengja samningatímann og er mælt að síðustu samningar bindi kaupmenn við félagið í 40 ár.

Það væri engin vanþörf á, að löggjafarvaldið tæki hér í taumana, ef það hefði hugsun og mannrænu til þess.

Stjórnin lagði nú fyrir þetta þing frv. til laga um heimild fyrir stjórnina, til að selja einstökum manni eða félagi einkasölu á steinolíu hér á landi. En þetta frv. var samið áður en steinolíufélagið sýndi sig í að fara að misbeita valdi sínu hér, eins og nú er bert orðið og tilgangur frv. var ekki sá að tryggja landsmönnum sanngjarnt steinolíuverð og gæði olíunnar; heldur var tilgangur einvörðungu sá að auka landsjóði tekjur með því að selja þjóðina undir einokunarvald einstaklings; og líklega mun helzt hafa verið hugsað um, að minsta kosti reyndir samningar um, að selja D. D. P. A. einokunarleyfið.

Þetta leizt landsmönnum ekki á. Landsmenn eru yfirleitt andvígir því, að einstaklingum sé í hendur selt einokunarvald yfir þjóðinni. Ef nauðsyn bæri til, mundu menn heldur taka því að landsstjórninni sjálfri væri veittur einkaréttur á einhverri vörutegund. Landsstjórnin hefir nefnilega enga hvöt til að svíkja gæði vörunnar; en það mundi í framkvæmdinni reynast ókleift að gæta slíks um einstaklinga.

Alþingi hafnaði því þessu frv. stjórnarinnar. En þegar hækkunin mikla á steinolíuverðinu kom í ljós, svo að sýnt var, hvert félagið stefndi, þá báru nokkrir þingmenn, eg, hv. 2. þm. Rang. (E. P.) og háttv. þm. Dal. (B. J.), upp frv. um að veita stjórninni einkaleyfi fyrst um sinn um eitt ár, eða til ársloka 1913 til að flytja hingað steinolíu til lands og selja landsmönnum hana fyrir það verð, er ríflega svaraði innkaupsverði og kostnaði. Frv. þetta var samþykt með allmiklum atkvæðafjölda í deildinni í gær og er nú á dagskrá til 2 umr. Tilgangurinn er, að 2. og 3. umr. verði lokið hér í deildinni í dag með þingskapa afbrigðum, og þá gæti efri deildin með þingskapaafbrigðum samþykt frv. við þrjár umræður á morgun, eða ef á þyrfti að halda, lokið síðustu umræðu snemma dags á mánudaginn.

Frumv. þetta er bygt á því að nefndarmönnum var kunnugt um að landsstjórnin hafði verið í samninga umleitunum við steinolíufélag í Bandaríkjunum, sem framleiðir ágæta olíu, sem sýnishorn eru til af hér, og er alveg óháð einokunarfélögutn Rockefellers. Enda til fleiri óháð félög í heiminum, sem kostur mundi á að semja við. Dálítil mótspyrna hefir komið fram gegn frv., aðallega bygð á vanþekkingu á almennu verzlunarfyrirkomulagi, og grýlur um upphugsuð vandkvæði fyrir stjórnina á því, að reka það starf, sem frv. heimilar henni. Hefir þó verið bent á hér á þinginu, að auvelt sé að fá einhvern merkan og óháðan kaupmann í Reykjavík til að reka heildsöluna fyrir stjórnina fyrir mjög sanngjarnt kaup, svo sem sem sex þúsund krónur eða þar um bil.

Þá hefir því og verið hreyft að stjórnin hlyti að hafa birgðaútsölu af olíu á hverri löggiltri höfn á landinu. En þetta er ekki annað en hégómagrýla. Frv. ætlast að eins til að stjórnin hafi ávalt nægar birgðir fyrirliggjandi á einum stað í landinu. Kaupmönnum, kaupfélögum, sveitarfélögum og öðrum er ekkert erfiðara að birgja sig upp héðan, en frá Kaupmannahöfn eða Skotlandi eða öðrum stöðum í útlöndum. En um þetta talaði eg ítarlega við 1. umræðu, og býst við að deildarmenn hafi hugfest það og muni.

Enn er óséð um forlög frv. En geta má þess, að fram er komin br.till. í þá átt, að veita Landsbankanum einkasölurétt þennan í stað þess að veita stjórninni hann og um jafn langan tíma.

Það er einmitt sérlega gleðilegt, að bankinn skuli þannig sýna, hvað vel hann treystir sér. Þá er um leið fallin sú mótbára, að ekki séu peningar fyrir hendi til þess að koma þessu í framkvæmd. Og ef bankinn hefir sjálfur fé til þessa, þá getur hann líka eins vel lánað stjórninni það. Það þarf ekki að vera til langs tíma í senn, því að peningarnir koma inn aftur jafnóðum og olían selst.

Annars hefi eg það að athuga við einstaka liði br.till, sem reyndar mundu gera þetta frumv. að nýju frv., að mér þykja frestirnir, sem tilteknir eru á þgskj. 382, vera of langir. Og við 5. tölul. á þgskj. 387 vil eg athuga það, að mér þykir tvísýnt, hvort rétt er að samþykkja slíkt. Alþingi hefir tæplega vald til þess að þvinga verzlanir til þess að flytja vörur þannig burtu. Raunar má vitna í vínsölulöggjöfina, en varlega er að slíku farandi, þótt eg annars gæti hallast að till. háttv. þm.

Þetta mál er meira vert en flesta menn grunar. Sérstaklega að því er snertir mótorbátaútveginn. Þeir bátar hafa hafa borgað sig þolanlega sumstaðar, en víðast er það svo, að þeir mega ekki við mikilli útgjaldahækkun frá því sem nú er, og á einni af mun stærri mótorbátaútgerðum landsins mundi þessi 5 kr. hækkun á steinolíutunnunni hafa í för með sér 1.500 króna útgjaldaauka á ári, og er það harður skattur. Ef hér er ekkert að gert, má búast við því, að nokkur þúsund manna kunni að flýja landið á næstu árum undan slíkum ókjörum, sem þá verður við að búa.

Eg heyri sagt, að einokunarfél. hafi verið mjög á stúfunum hér um bæinn síðan í gær, líklega til þess á sinn hátt að sannfœra(!) þingmenn um, að hér sé friður og öllu óhætt, en eg trúi því ekki, að þingmenn láti slíkt hafa áhrif á sig. Hér getur verið um líf eða dauða mótorbátaútgerðarinnar að tefla, og það verður tekið eftir því, ekki einungis hér heldur og úti um alt land, hvernig hver þingm. greiðir atkv. í þessu máli í dag.

Eg sé, að hér er komið fram skjal frá kaupmanni einum hér í bænum. Eg veit að hann hefir 30 ára reynslu fyrir sér og að flest er rétt sem hann segir, en eitt er þó rangt sem hann segir þar og það vil eg ekki styrkja, sem sé það, að farmgjöldin hafl ekki hækkað. Þau hafa hækkað — eins og eg hefi sagt — ekki í neinu hlutfalli við þessa verðhækkun, sem nú er orðin á steinolíu, sízt þegar tekið er tillit til þess, hverju þetta félag hefir efni á, þar sem það hefir gefið 145% í árságóða og þó verið í vandræðum með að dylja hina sönnu upphæð ágóðans. Eg skal svo ekki tala meira að sinni, en býst við að þurfa að standa upp aftur til þess að gegna mótbárum.