22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Björn Kristjánsson:

Eg á hér brtill. við þetta frv., og eg vil taka það fram, að hún er varatill., því að eg skoða svo, að hv. deild hafi þegar lagt úrskurð sinn á þetta mál, með rökst. dagskrá, sem samþ. hefir verið, þar sem gengið var út frá því, að stjórnin gerði sitt ítrasta til að styrkja innlendan félagsskap, sem stofnaður yrði í þessu skyni með stuðningi banka, án tillits til þess, hvernig á stendur nú í svipinn. Það er vitanlegt, að þessi hækkun er almenn, og því álít eg að frekari framkvæmdir í þessu máli eigi þingið að geyma sér. Ef það fer nú að samþ. þetta frv., þá er það sama sem að taka aftur alt sem það sagði fyrir tveim dögum. Ef það væri satt, að hækkunin væri bara þessu eina félagi að kenna, sem væri að kúga Íslendinga, þá skal eg játa að full þörf væri á því, að samþ. annað hvort frv. þeirra hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) óbreytt, eða þá till. mína, en eg skal benda á það, að af því að mótmæli hafa komið fram gegn því, að þessi hækkun sé almenn, þá hefi eg símað í dag, bæði til New York og Kaupmannahafnar og spurst fyrir um markaðsverðið á steinolíu, enn á ný, og vænti eg að fá svar áður en langt um líður, það er að segja ef ekki fer eins og um daginn, að svarið verði 28 tíma á leiðinni, en að minsta kosti ætti eg að vera búinn að fá það fyrir 3. umr. þessa máls.

Eg tek það enn fram, að þessi tillaga mín er einungis til vara, því að helzt vænti eg þess, að þingið muni ekki forma að samþ. þetta frv., svo dæmalaust illa sem það er undirbúið. Hér eru til margar leiðir, sem fara mætti, en hv. 2 þm. S.-Múl. (J. Ó.) hefir ekki séð nema þá einu, sem milliþingan. hafði farið. (Jón Ólafsson: Alt aðra leið!) T. d. mætti halda sér við dagskrána þá um daginn, eins og eg hefi bent á. Enn mætti hafa eftirlit með væntanlegum félagsskap frá öllum hliðum með lögum, það mætti takmarka hámark ágóðans og láta landssjóð hafa afganginn. Loks er varatill. mín líka tryggari en frv. Alt er þetta tryggara en frv., og sýnir þetta hve illa það er undirbúið. Eg kem fram með þessa till. bæði af því, að stjórnin hefir látið í ljós að örðugt mundi verða að fá lán í þessu skyni, og svo í öðru lagi vegna þess, að bankinn er landsstofnun, og gera má ráð fyrir að hann ráði yfir meiri verzlunarþekkingu, en stjórnin.

Og eg er hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) þakklátur fyrir það, að hann hefir ekki haft mikið á móti þessari till., því að ef stofna á til einokunar á annað borð, þá er réttast að fela hana þeirri stofnun, sem ætla má að bezt kunni með að fara, sem er landsins eign og sem hefir umráð yfir fé til þess, en á hinn bóginn óska eg ekki að til þess komi, nema því að eins, að frv. verði samþ.

Nú verðum við að hafa hliðsjón af því, hvað fram fer í kringum okkur. Við vitum að þessi hækkun nær til Þýzkalands, Danmerkur og Englands. Hafa nú þing þessara þjóða risið upp og samþykt einokunarfrumvörp? Nei, þau hafa farið sömu leið og við höfum farið hingað til, (Jón Ólafsson: Þing eru þar ekki saman komin nú). Þau hafa reynt að stuðla að frjálsri samkepni, og sú leið ætlaðist rökstudda dagskráin til að farin yrði með aðstoð stjórnar og banka, og geti þessi öfl ekki borgið málinu í sameiningu, þá er eitthvað þungt fyrir, og þá er hætt við að þetta frv. geti það ekki heldur. Það er vant að duga til frjálsrar samkepni, ef það er á allra manna vitorði, að einhver dugur og afl stendur á bak við þann sem við mann keppir, svo að ef verðið er skrúfað upp, þá geti það eigi staðið til langframa.

Þetta er því fyrsta leiðin, og það er fyrst ef hún bregst, að reyna má að grípa til þess, að taka alt vald til verzlunar í landsins hendur. Og sem því að eins getur komið að haldi, að önnur lönd fari eins að, því annars er hætt við að auðmannafélögin banni að selja nokkra olíu til Íslands, og þá er ver farið en heima setið.

En eg vil mælast til þess, að hv. deild íhugi það vel, að svo framarlega sem hún hallast nú að einokun, þá feli hún þó framkvæmd hennar þeirri stofnun, sem landið á, og sem hefir þekkingarskilyrði til þess að geta tekið þetta að sér, og þar að auk helzt ráð til þess, fjárins vegna, en losi landssjóð við það, að þurfa að taka lán til þess.

Um br.till. á þgskj. 381 frá hv. þm. Sfjk. (V. G.) skal eg taka það fram, að eg er samdóma hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) um það, að það er tæplega ætlandi að stjórnin geti komið nokkrum að liði eftir henni. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er nokkuð annað, að panta gaddavír, sem taka má fáeinar rúllur af í einu, eða steinolíu, sem ekki dugir að fá öðruvísi en miklar birgðir í einu. Enda er það líka vitanlegt, hvernig stjórninni gekk við gaddavírskaupin. Eg man t. d. eftir því, að eitt sumarið kom eg tvisvar upp í Borgarnes, og sá þar girðingarstólpa liggja mölbrotna í fjörunni hrönnum saman. Eg spurði hver ætti þetta, og var mér sagt með mestu fyrirlitningu að það væri landgsjóður. Sá sem hafði pantað þetta, hafði ekki hirt það. Hver þetta hefir borgað veit eg ekki, en eg kom þarna haust og vor, og í bæði skiftin lágu stólparnir þarna. Svona er það, þegar landið þarf að vera að vasast í slíkum viðskiftum, enda veit eg að stjórnin vill helzt vera laus við þetta.

Það mundi oft fara svo með fleira eins og þessa girðingarstólpa, að enginn mundi hirða það og því vera stolið. Svo er þess að gæta, að steinolían er dýr vara og hana þarf að fá á alveg vissum tímum, menn hafa ekki ráð á að bíða eftir henni, þess vegna mundu menn panta lítið í einu, því að oftast eiga menn í basli með peninga, og þegar svo varan kæmi, gætu þeir ef til vill ekki leyst hana út og yrðu svo að setja upp báta sína. Það má lýsa því í það óendanlega, hve óframkvæmanlegt þetta fyrirkomulag mundi verða, og segi eg þetta ekki af því, að eg treysti ekki stjórninni til þess, að hún mundi reyna að gera skyldu sína í þessu efni eftir föngum, heldur af hinu, að eg veit að hún getur ekki annast það.

Eg skal svo ekki lengja umræðurnar meira, en vona að háttv. deild fallist á tillögu mína, ef hún ætlar sér að veita þessa heimild á annað borð, einkum þar sem háttv. flutnm. (J. Ó.) er henni ekkert mótfallinn.