22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Ráðherrann (H. H.):

Eg þakka háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) fyrir góðan vilja og það mikla traust, sem hann ber til stjórnarinnar. Henni er ekki aðeins í sjálfsvald sett hve miklar birgðir af steinolíu hún kaupir og hve mikið lán hún tekur til þess, heldur hefir hún líka takmarkalaust vald til þess að ákveða, hvort steinolíuverzlunin skuli vera frjáls eða einokuð, og hvenær hún skuli vera frjáls og hvenær einokuð.

Háttv. 1. þm. G. K. (B. Kr.) hlýtur að hafa breytt skoðun sinni átakanlega síðan hann skrifaði nefndarálit skattamálanefndarinnar um einkasölu á steinolíu, ella gæti hann ekki komið fram með br.till. á þgskj. 382, þar sem farið er fram á að veita Landsbankanum takmarkalausan einokunarrétt til innflutnings og sölu á steinolíu. Eg skal með leyfi hæstv. forseta lesa örfá orð upp úr nefndaráliti skattamálanefndarinnar um frumvarp til laga um heimild fyrir ráðherra Íslands til að gera samning um einkaréttarsölu á steinolíu um tiltekið árabil, á þgskj. 315.

Þar segir svo:

„Það er brotalítil og handhæg leið, en ekki að sama skapi hyggileg eða hættulaus fyrir landsbúa. Því að ef byrjað væri á að einoka eina vörutegund, er hætt við að brátt muni að því reka, að gripið yrði til fleiri vörutegunda, og vant fyrir að sjá, hvar staðar mundi numið. Löggjafinn væri því kominn inn á flughála skriðbraut, sem enginn sér fyrir endann á, en augsýnilega stefndi í áttina til glötunar á því dýrasta hnossi sem íslenzka þjóðin á til í eigu sinni: verzlunarfrelsinu.“

„Síðan við fengum verzlunarfrelsið hafa framfarir orðið í öllum greinum. Þetta eitt ætti að vera nægileg bending fyrir þjóð vora til þess að hætta sér ekki aftur út á einokunarbrautina, heldur halda sem fastast við frjálsa verzlun og frjálsa samkepni, sem reynst hefir þjóð vorri önnur eins búbót og blessunarlind, eins og raun gefur vitni“. — „Það er segin saga, að með einokun verður öll verzlun með þær vörutegundir, sem einokaðar eru hálfu verri en ella, bæði að því er snertir gæði og verð vörutegundanna“.

Og eftir að hafa tekið fram að fráleitast sé að einoka nauðsynjavöru, segir háttv. þingmaður sérstaklega um steinolíueinokun:

„Og einmitt ein af slíkum vörutegundum er steinolían. Hún er ekki einungis aðal ljósmeti landsbúa, heldur líka afltaugin í mótorbátaútveg vorum, sem virðist eiga full erfitt uppdráttar, þótt eigi séu lagðar einokunar hömlur á hann. Og allar horfur virðast nú á, að steinolía verði brátt notuð í stað kola í botnvörpungum vorum, jafn mikill sparnaður og þægindi, sem því eru samfara, að því er síðustu tilraunir hafa sýnt. Einmitt í því efni virðist ný öld vera að renna upp fyrir notkun steinolíunnar, og væri því meira en misráðið að byrja þá öld með einokun á henni“.

Þetta hefir hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) skrifað, ásamt fleiri mælskufullum ummælum um einkasöluhugmyndina yfirleitt, og væri ómögulegt, að hann kæmi fram með þessa ákveðnu og ótakmörkuðu einkaréttartillögu Landsbankanum til handa, nú, ef bann hefði ekki breytt skoðun sinni stórkostlega á þessum fáu dögum síðan 19. þ. m. þegar nefndarálitið er dagsett, og er það gleðilegt, að sjóndeildarhringurinn hefir víkkað svo að hann sér þó nú, að fordæmingardómar hans gilda ekki í öllum tilfellum, og að hin svonefnda „frjálsa verzlun“ getur líka haft sinn djöful að draga í sumum greinum. En annars á hann þessi veiðibrögð sameiginleg við ýmsa kaupmenn og útgerðarmenn hér í bænum. Það er eftirtektarvert, að einmitt sumir þeirra, sem hæzt létu í vetur og vor og gerðust frumkvöðlar að mótmælum og gauragangi gegn tillögum milliþinganefndarinnar, sem gengu í líka átt, þeir eru nú áfjáðastir um að fá einkasölu á steinolíu. Sem nefndarmaður í milliþinganefndinni ætti eg nú að fagna þessum nýju skoðanabræðrum, en samt álít eg ekki að þessi tillaga nái tilgangi sínum, hún hefði átt að koma fyr, áður en felt var vel hugsað og vel undirbúið frumvarp stjórnarinnar um þetta efni. Það frv. hefði væntanlega getað komið að gagni nú, með þeirri breytingu að fella burt 4. gr., og láta stjórnina um að komast að samningum um viðunanlegt og fast verð. Þá var svo um hnútana búið að öðru leyti, að því er skilyrði snertir, að hættulaust hefði átt að vera, að semja við öflug félög, sem hefði getað veitt landinu tryggingu fyrir sæmilegum kjörum, og sennilega hefði það félag, sem mest á í hættunni, ef einkasölu réttur verður öðrum veittur, verið fáanlegt til að ganga að góðum samningum. Væntanlega hefði einnig mátt finna mörg önnur félög. sem hefðu viljað ganga að góðum samningum á einhvern hátt.

En það frv. er nú fallið og í staðinn komin þýðingarlaus rökstudd dagskrá, og svo þetta frv. og brtill. sem nú liggja fyrir, með göllum og gæðum.

Eins og eg áður hefi drepið á, er ein af ástæðunum fyrir því, að eg álít frv. óaðgengilegt og ekki líklegt til nota, sú, að engin skylda á að hvíla á einkaleyfishafa til þess að „distribuera“ olíuna, þ. e. sjá um að hún sé til sölu víðsvegar um land. Þó á ekki að verða nema einn upplagsstaður, hér í Rvík, og eiga svo menn um alt land sjálfir að sjá fyrir því, að útvega sér hana héðan.

Nú sér steinolíufélagið D. D. P. A. um, að olían er flutt út víðsvegar um hafnir og fá kaupmenn hana alstaðar með sama verði, hvort heldur í Reykjavík eða á öðrum höfnum landsins, þar sem steinolían er afhent, og er séð um, að öll fötin séu full, þ. e. félagið ábyrgist alla rírnun þangað til fatið er afhent kaupmanni.

Eftir því fyrirkomulagi, sem hér er stungið upp á, mundi ekki að eins bætast við Reykjavíkurverðið allur flutningskostnaður víðsvegar um land, sem oft getur orðið mikill, en auk þess yrðu þeir ver settir að því, að landinu væri ómögulegt, án afarmikillar áhættu og kostnaðar fyrir landssjóð, að ábyrgjast að öll aðflutt steinolíuföt væru full, og bæta upp allan leka, sem orðið getur í upplaginu hér í Reykjavík.

Þar sem hér yrði að geyma ósköpin öll af steinolíufötum, jafnvel undir beru lofti, er hætt við, að lekinn yrði mikill, og ættu kaupendur þá á hættu, þegar þeir ætluðu að kaupa 200 potta olíufat fult, að fá þá hálft fat eða jafnvel að eins slatta í fati, og mundi það þykja súrt í broti, og ábatinn lítill fram yfir það sem nú er, eftir verðhækkunina. Auk þess gæti þetta fyrirkomulag orðið beint hættulegt, því eftir því sem skipaferðir og samgöngur á sjó eru nú, og væntanlega verða næsta ár, er oft ómögulegt á ýmsum stöðum landsins að nálgast olíu frá Reykjavík, þótt hægt væri frá útlöndum, og bregðist kaupmaður í smákauptúni eða vanræki að útvega olíu, þá verður ekki eins og nú, hægt að leita til næstu kaupstaða, alt verður til Reykjavíkur að sækja.

Þetta gæti leitt til þess, að mótorbátar yrðu að hætta á miðri vertíð og jafnvel fólk að sitja í myrkri.

Því verður ekki neitað, að hið opinbera verður að tryggja mönnum hægan aðgang að olíu, ef það bannar öðrum innflutning á henni. Þessu meginatriði er alls ekki fullnægt með frumvarpinu og heldur ekki þó Landsbankinn taki að sér að útvega samkvæmt till. hv. 1. þm. G. K. (B. K). Það er ekki unt með neinum rétti að skella skuldinni á kaupmenn, ef illa tekst til, og olíubirgðir þrjóta þar, sem þeim, með innflutningsbanninu er fyrirmunað að ná henni þaðan sem þeim er hægast. Enda bætir það lítið úr skák, þegar í óefnið er komið, þó hægt væri að skamma kaupmennina út fyrir ódugnað. Eg held því að þetta frumvarp, þó það sé í góðum tilgangi gert, mundi vera svo langt frá því að koma að tilætluðum notum, en það mundi að eins vekja vonir er hljóta að bregðast, og jafnvel geti haft háskalegar afleiðingar.

Brtill. hv. 1. þm.G. K. (B. K.) mundu, hvernig sem annars á þær er litið, alls ekki ráða neina bót á í bráð, því að fyrst þyrfti bankinn að leita upplýsinga út um allan heim og síðan þyrfti að auglýsa með 6 mánaða fyrirvara og mundi þetta þá alls ekki komið í kring fyr en eftir ár og dag, og að því ári liðnu væru annmarkarnir þeir sömu, að tryggingin væri ekki nægileg fyrir því, að einkasala bankans yrði að gagni en ekki tjóni vegna óliðlegs fyrirkomulags.

Það er og athugavert við tillögurnar, að engin takmörk eru sett fyrir þessu monopoli bankans, og er svo að sjá, sem hann eigi að hafa þessi hlunnindi til eilífðar, eða þá skaðabætur fyrir missi þeirra, ef menn verði leiðir á því, hvernig hann rekur starfið.

En auk þessa er eitt meginatriði á móti tillögum hv. 1. þm G. K. (B. K.) og það er það, að það er alls ekki samrýmanlegt við bankastörfin að bankinn takist þetta á hendur. Það er óforsvaranlegt, að bankinn taki það fé sem menn eiga þar í sparisjóði eða á hlaupareikningi og stofni því í hættu með því að takast á hendur svona atvinnu, sem er beinlínis mikið áhættu fyrirtæki. Og svo eru ýms ákvæði óhæf, t. d ákvæði um, að þeir menn, sem eiga steinolíu fyrirliggjandi þegar bankinn byrjareinokun sína, eigi að flytja hana út úr landinu, ef þeir ekki geta komið sér saman við bankastjórnina, um kaup á henni fyrir það verð, sem bankinn tiltekur.

Það er með öðrum orðum: Menn eru skyldaðir til þess að láta af hendi og missa endurgjaldslaust flutningskostnað allan hingað og héðan, og blandast mér ekki hugur um að það væri beint brot á stjórnarskránni.

Hvað viðvíkur breytingartillögum hv. þm. Sfjk. (V. G.) þá hygg eg að þær komi ekki að gagni, stjórnin á fyrst að leita út um allan heim eftir góðum kjörum; svo á hún að fara að leita til sveitarstjórna og bæjarstjórna, með seinlátum póstferðum, og svo eiga þær að leita fyrir sér um samtök milli einstakra manna í héruðunum. Held eg því að gagn verði lítið að þessum brt. í bráðina nema á pappírnum.

Svo leitt sem mér þykir það að ekkert skuli vera unt að gera nú í þessu efni með von um góðan árangur, úr því frumvarp stjórnarinnar var drepið hér í hv. deild í gær, og svo feginn sem eg hefði viljað vinna að því, að fá bót á þeim vandkvæðum, sem stafað geta af óvissu og ósanngjörnu steinolíuverði, þá get eg ekki verið með í þeirri sjálfsblekkingu, að samþykkja þetta frumvarp.