22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Eggert Pálsson:

Eg hygg að allir sjái að þetta frumv. hafi talsvert breytt stefnu frá frumvarpi því, sem fyrir lá í gær og engum geti dulist að það er af öðrum toga spunnið. Í hinu frumv. var stjórninni veitt heimild til að semja um einkasölu á steinolíu um 20 ára bil, en hér er ætlast til að hún reki einkasöluna sjálf. Og þótt eg telji ekki frágangssök að gera samning við eitthvert örugt félag með aðgengilegum kjörum, ef þess gerist bein þörf, þá finst mér þó betra, að landstjórnin hafi einkasöluna sjálf á hendi, heldur en að hún selji hana öðrum í hendur. Eg álít þá braut miklu hyggilegri en hina, því að þó einkasalan reynist illa þá getur tapið aldrei orðið mjög gífurlegt á einu ári eða svo, en eigi einkasalan að standa um 20 ára bil samkvæmt bindandi samningi, þá yrði ekki með tölum talið það tap, sem af því gæti leitt.

Orsök hins frumvarpsins var að útvega landssjóði tekjur. En nú hygg eg að bætt sé úr fjárskorti landsins í bráðina og er því sú ástæða þar með fallin. Það er af nýrri orsök, að þetta seinna frumvarp er fram komið, það er af því hve örðugir þessir svonefndu steinolíuhringar hafa reynzt viðfangs. Frumv. er framkomið til að gera tilraun til að brjóta makt og veldi þeirra hér á landi en það verður ekki gert nema með því einu móti að löggjafarvaldið kippi fljótt og fast í taumana. Hitt frv., sem er fallið, hefði gefið hringunum nægilegt svigrúm, til þess að átta sig, og enda máske með föstum samningi, enn ríkari tökum á steinolíuverzluninni, en þetta frv. miðar að því gagnstæða, miðar að því að hrifa þessa verzlun úr höndum þessa auðuga og óbilgjarna einokunarhrings. Þetta frv. verður eins og fyrirsögn þess ber með sér, ekki annað en heimildarlög og mun eg alls ekki ásaka stjórnina þó hún ekki noti þau, ef ekki reynist brýn þörf á því. En þó aldrei þurfi að grípa til þessara heimildarlaga, þá geta þau gert og gera eflaust mjög mikið gagn, þar er, þau verða eins og nokkurs konar hangandi sverð yfir höfði félagsins, svo að það leyfi sér ekki óþarfa eða ósvífna hækkun á verði steinolíunnar, að minsta kosti ekki frekar en þegar er orðið.

Verði þetta frumv. samþykt nú, þá verður þessi dagur óefað sá dagurinn sem bezt borgar sig af öllum þingdögunum. Að vísu kannast eg við, að með þessu frv. er stjórninni mjög mikið vald í hendur fengið, en eg ber fyrir mitt leyti fullkomið traust til hennar, og veit að ekki þarf að óttast að hún fari illa með það vald, sem henni er með því í hendur fengið. Því hefir verið haldið fram, að það yrði kostnaðarsamt og örðugleikum bundið, að flytja steinolíuna og hafa útsölu út um land. En miklir mega þeir örðugleikar vera og stórfeldur sá kostnaður ef það ekki gæti borgað sig. Eg skal að eins benda á það, að hluthafar þessa olíufélags hafa fengið 145% ágóða af hlutum sínum síðastliðið ár, og eftir hækkuninni á verði olíunnar, ætti ágóðinn að verða 200% eða með öðrum orðum, steinolían að verða seld við þreföldu verði við það sem hún þyrfti í raun og veru að vera. Eg kannast við að einn örðugleiki gæti komið til og hann stór, sem sé sá, að landsstjórnina brysti bæði vit og peninga til að reka slíka verzlun. En á brt. hv. 1. þm. G. K. (B. Kr.) sé eg að þessum örðugleikum er ekki til að dreyfa, þar sem hún miðar að því að leggja einkasöluna í hendur Landsbankans. En þar sem bankann þannig hvorki virðist hvorki skorta fé né vit til að reka slíka verzlun ef hann að eins fær að bæta við sig einum manni, virðist svo sem landsstjórnina þurfi hvorugt að skorta. Ef bankinn sér sér nokkur tök á að fá þann mann, sem vitið hefir, því skyldi þá ekki stjórn landsins eins geta útvegað sér hann? Og hafi bankinn nægilegt fé til þess að geta rekið slíka verzlun, hví skyldi þá landsstjórnin þurfa að standa uppi í ráðaleysi fyrir þær sakir?

Viðvíkjandi tillögu hv. þm. þm. Sfjk. (V. G.), um að haga pöntun á steinolíu líkt og hagað var forðum pöntun á gaddavír, þá held eg að hún komi ekki að neinu gagni. Hér eru alt aðrar og ólíkar kringumstæður sem fyrir liggja. Þegar gaddavírspöntunin var framkvæmd, var ekki við neinn einokunarhring að etja. Yrði nú farið að panta steinolíu á sama hátt og gaddavírinn var pantaður, mundi steinolíufélagið setja verðið niður rétt á meðan landssjóður væri að selja sinn farm, svo að hann annaðhvort gæti ekki selt hann eða yrði að selja hann með stórfeldu tapi, en setja svo verðið aftur þeim mun meira strax á eftir. Það er ekki við nein lömb að leika sér, að eiga við slíka einokunarhringi, sem hér um ræðir.

Það er sannfæring mín að landinu verði ekki bjargað úr klóm þessa útlenda einokunarfélags með öðru móti en þessu einu að samþykkja þetta frv., sem hér liggur fyrir og við háttv. þm. S.-Múl., (J. Ól.), þm. Dal. (B. J.) og eg höfum flutt. Dugi það ekki, þá dugir ekkert.