22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Framsm. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Þegar eg bar þetta frv. fram, gerði eg það af því, að eg áleit það skyldu mínu við kjósendur mína og þjóðina í heild sinni. Eg hefi reynt að færa þau rök, sem mér var auðið, fyrir nauðsyn þess, og verður það að ráðast, hver forlög þess verða.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) og fleiri hafa talað um að frumv. sé illa undirbúið og megi ekki flaustra því af. En eg vil spyrja: Er ekki réttara, þegar tíminn er orðinn naumur en brýn nauðsyn á aðra hlið til að gera eitthvað í þessu máli, að taka eitthvað til bragðs, heldur en að gefast upp á gat? Eg hefi áður hugsað um einkaréttarsölu fyrir stjórnina. Eg hefi rætt og ritað um hana fyrir 2 árum, og aldrei dottið í hug að þjóðin yrði seld undir einokun til ágóða fyrir einstaka menn. Steinolíufélagið hér hefir gert samninga við kaupmenn um að selja ekki aðra steinolíu en það lætur af hendi. Verði þetta frumvarp að lögum og notað, er þar með á enda þessi samningur félagsins við kaupmenn og engin líkindi til að þeir brenni sig aftur á sama soðinu. Brent barn forðast eldinn.

Að því er hæstv. ráðherra (H. H.) snertir, get eg ekki varist því að segja að það er leitt um svo góðan mann, hverju ástfóstri hann hefir tekið við þetta sálaða frumvarp sitt. Eg veit reyndar, að hverjum þykir sinn fugl fagur, og mér dettur í hug annar málsháttur: „Gaman er að börnunum, sagði karl, átti 7 fífl og áttunda umskifting“. Mér finst hæstv. ráðherra hafa lagt alt of mikið kapp á að verja þetta frv. sitt. Honum er svo margt mjög vel gefið að það er raun að því, að hann skuli leggja sig svo fast fram í málinu, sem hann ber ekki nægilegt skynbragð á. Eg álít að honum sé einna minst sýnt um verzlunarmál. Hér er að eins farið fram á að fela stjórninni að leita framkvæmda um þetta. Hún getur fengið menn til að vinna verkið. Það hefir aldrei verið ætlast til að hún ynni það sjálf.

Hæstv. ráðherra gerði mikið úr því, hvað steinolíuföt væru vel fylt hjá steinolíufélaginu. Hann sagði að félagið flytti olíuna á hverja höfn, og seldi hana alstaðar með sama verði. Það væri góður kostur, ef olían væri góð og verðið gott. En þó félagið geri þessa góðu kosti, er vert að gæta að því, að eftir eigin reikningum þess hefir það grætt 145% á þessari verzlun. (Hannes Hafstein: Ekki á Íslandsverzluninni). Það hefir grætt þetta á verzlun sinni yfir höfuð, og Íslandsverzlunin er grein af þessari verzlun. Þegar félagið hefir efni á að gera annað eins og þetta og hefir þó svo mikinn ágóða á verzluninni, sýnist ekki vera ástæða til að hækka verð á steinolíu nú, en hafi það ekki haft nógan ágóða áður, þá lítur út fyrir að það ætli sér að hafa það nú. Áður en þetta D. D. P. A. kom til sögunnar, keyptu kaupmenn sjálfir olíuna á heildsölumarkaði erlendis, og urðu sjálfir að annast um að nálgast hana. — Heldur annars háttv. ráðherra að D. D. P. A. flytji olíuna til kaupmanna fyrir ekkert?

Eða heldur hann að það gefi kaupendum það sem það fyllir á fötin fyrir leka? Onei, það leggur það á olíuna og lætur landsmenn meir en tvíborga kostnað þennan. Landið gœti auðvitað flutt olíuna og fylt upp föt, sem lekið hafa, og talið það með kostnaði samkv. frumv., og kæmi það þá fram í verðinu — eins og nú.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri óbærilegt að geyma steinolíu úti. En hvað gerir steinolíufélagið ? Eg geng stundum hérna suður á Melana, og eg sé að rétt fyrir vestan bústað hæstv. ráðherra stendur stór opinn (þ. e, þaklaus) skúr þar sem félagið geymir steinolíubirgðir sínar.

Þá skal eg víkja nokkrum orðum að háttv. þm. Vestm. (J. M.). Eg er honum að mestu leyti þakklátur fyrir undirtektir hans, þó að hann álíti að þetta sé ekki framkvæmanlegt fyrir stjórnina. Mér fanst það á röksemdaleiðslu hans, að hann ætlaði samt að greiða atkv. með frumv. Í því er ekki nein skipun til stjórnarinnar til að gera þetta, heldur að eins heimild, ef hún sér sér það framkvæmanlegt. Ultra posse nemo obligatur. Eg er alveg sannfærður um, að enginn myndi álasa stjórninni fyrir það, þó að hún notaði ekki þessa heimild, ef hún sæi sér það óframkvæmanlegt.

Eg held þess vegna að hið eina rétta sé að samþykkja frumv. eins og það liggur fyrir. Með því er ekkert á háska lagt, en von um góðan árangur. Stjórnin getur notað heimildina ef henni þykir það fært, annars ekki. Verði frumv. samþykt, gæti og farið svo, að fyrir bragðið þurfi ekki á framkvæmd heimildarinnar að halda.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, því að eg býst við að það hafi ekki mikil áhrif á atkvæðagreiðsluna, þó það verði lengur rætt.

Um gaddavírs-barnaskap háttv. þm. Sfjk. (V. G.) er alveg óþarfi að tala.