22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Það eru að eins örfá orð, sem eg vildi segja, því háttv. þm. Vestm. (J. M.) er búinn að taka ómakið af mér. Eg sé ekki betur en að hér sé komið í óvænt efni. Ef þessi verðhækkun á steinolíu á að haldast, er alt útlit fyrir að mótorbátaútvegurinn sé þar með dauður. Það er óhugsanlegt, að hann geti þolað svo mikla verðhækkun á þeirri vöru, sem hann aðallega lifir á. En er nú þessi útvegur einskisvirði? Er ekki vert að gera eitthvað til að vernda hann? Hann er svo mikils virði, að landsmenn yfir höfuð myndu verða síður færir um að greiða þau gjöld, sem á þeim hvíla, ef hann legðist niður, og eg er viss um að það drægi þann dilk á eftir sér, að margur maðurinn yrði gjaldþrota.

Menn verða að gæta að því, hve mikla þýðingu þessi verðhækkun hefir. Sú hækkun, sem þegar er orðin, mun nema um 150 þús. kr. á þeirri olíu, sem landsmenn brúka árlega. Og ef nú bætist við 7 kr. hækkun á hverri tunnu, eins og talað er um að verða muni, þá nemur hækkunin 360.000 kr. árlega, eða meira. Hér eru góð ráð dýr, og verður eitthvað til bragðs að taka nú þegar til að bæta úr þessari yfirvofandi hættu. Það er áreiðanlegt, að fljótt hjálpað er tvisvar hjálpað. En það þolir enga bið, því að það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í.

Eg hefi ekki getað sannfærst um að framkvæmd þessara laga yrði svo miklum örðugleikum bundin eins og hæstv. ráðherra hefir látið í ljósi. Það ætlast enginn til að ráðherrann sjálfur eða þeir menn, sem hann hefir ráð á í stjórnarráðinu, vinni þetta verk, heldur að hann fái einhverjum trúverðugum manni það í hendur. Honum er gefið autt blað til að hegða sér í þessu efni eins og honum þykir bezt henta, og sýnir það, hve mikið traust er borið til hans, og það er vafalaust, að hann er þess trausts verður. Það hefir verið margtekið fram, að hér er einungis um heimildarlög að ræða, sem aldrei geta gert skaða, en mikil líkindi til að gott megi af leiða. Og ef þetta ferst illa í framkvæmdinni, mun enginn áfella ráðherrann fyrir það, heldur þingið. Eg mun á sínum tíma greiða atkvæði með þessu frumv.

Það ætti ekki að vera erfiðara fyrir landsstjórnina að hafa þessa sölu á hendi, heldur en það er fyrir steinolíufélagið. Það er ekki rétt, að steinolíufélagið leggi upp steinolíu á allar hafnir landsins, en það lætur skip sín flytja olíuna á hverja höfn eftir því sem kaupmenn panta í það og það skiftið. Og þrátt fyrir þann kostnað, sem af því leiðir, hefir félagið þennan geysimikla hagnað af sölunni. Það væri gott. ef landssjóður gæti stungið einhverju af þeim ágóða í sinn vasa.