22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Björn Kristjánsson:

Umræðurnar eru nú orðnar nokkuð langar, svo að varla er á það bætandi. Eg vildi þó leyfa mér að gera athugasemdir við fáein átriði.

Mig furðar á því, að nefndinni skyldi ekki detta í hug að gefa Landsbankanum heimild til þessarar einkasölu. Menn halda að bankinn mundi skaðast á sölunni. Ef um almenna verzlun væri að gera, gæti svo farið, en þegar um einveldi er að ræða, er alt öðru máli að gegna og myndi verða hverri stofnun stofnun til hagsmuna. Eg vil segja, að ef slíkt einveldi væri gefið í einhvers okkar hönd, þá mundum við sjálfir álíta að við værum trygðir fyrir lífstíð. Það er sá mikli munur, hvort um einveldi á verzlun er að ræða, eða þarf að keppa við aðra. Það myndi verða stór stoð fyrir Landsbankann og efla traust hans mikið, ef hann tæki þessa verzlun að sér. Eg vildi að eins slá þetta niður, því að það er svo fjarstætt að Landsbankinn standi ekki vel að vígi í þessu efni; það mundi einmitt auka traust hans utan lands og innan.

Annars er eg hæstv. ráðh. (H. H.) þakklátur fyrir það sem hann las upp úr nefndaráliti mínu, því ef til vill hefði ekki helmingurinn af þeim sem við eru staddir haft tækifæri til að kynnast áliti mínu, sem eg stend við. Eg er, eins og eg hefi verið, á móti einokun, í hverri mynd sem er.

Ef deildin samþykkir frv. hv. 2. þm. S.-Múl. (J, Ól.), þá kem eg með till. um að Landsbankinn verði látinn taka að sér söluna. Hann hefir nóg fé til umráða og auk þess viðskiftalega þekkingu og er fult eins heppilegt fyrir landstjórnina að fela honum það eins og landssjóði.

Það var rétt, sem hæstv. ráðh. (H. H.) sagði, að það er ekki venjulegt að bankar hafi svona verzlun á hendi. En eg þekki heldur ekki neitt dæmi til þess, að verzlun á nauðsynjavöru sé seld á leigu og bönnuð öll samkepni. Slíkt er óþekt um allan heim.

Hvað viðvíkur tímanum, sem þeim er verzla hér með steinolíu, er gefinn til að selja upp birgðir sínar, þá skal eg geta þess, að eg orðaði þessa breyt.till. þannig, af því að eg álít það ekki rétt að kippa verzluninni af nokkrum manni eða félagi fyrirvaralaust. Eg tók þetta skýrt fram í dag, þótt því sé nú vikið nokkuð við í umræðunum. Í þessari brtill. er gert ráð fyrir að þeim sé gefinn sex mánaða frestur til að selja birgðir sínar, og ef þeir eiga eitthvað óselt þegar fresturinn er útrunninn, þá sé þeim gert að skyldu að flytja það burt af landinu eða selja Landsbankanum.

Eg get ekki séð að þetta sé svo hart ákvæði, því að þegar steinolíuverzlunin veit það fyrir fram, að hún hefir ekki nema sex mánaða frezt, þá mun hún ekki panta meiri olíu frá útlöndum en svo, að hún sjái sér nokkurn veginn fært að selja upp.

Viðvíkjandi því, hvernig fljótlegast væri að skapa jafnvægi móti einveldinu, þá er það með því að stofna í snatri hlutafélag, með aðstoð beggja bankanna og panta upp þær birgðir, sem bráðnauðsynlegastar væru, til að sjá t. d. mótorbátunum borgið. Og ef að ætti að kyrkja það félag í fæðingunni, þá mætti það eiga von á því að þingið skærist í leikinn og saumaði betur að einveldinu, ef þess væri kostur annara kringum stæða vegna.

En eg vil benda á það, að aðrar þjóðir grípa ekki til þessara ráða. Hvers vegna byrja ekki Danir á þessu? Þeir eru kúgaðir eins og við. Eða Þjóðverjar? Þeir eru líka kúgaðir eins og við. Menn byrja ekki á slíku fyr en samkepnin er útilokuð og aðrar kringumstæður gera það mögulegt. Þetta steinolíufélag hefir ekki einveldi. Mér er sagt, að það eigi ekki yfirráð yfir nema 70% af þeirri olíu, sem framleidd er í Ameríku. Fyrir þá sök er ekki hægt að skoða þetta steinolíufélag sem alheims einokunarfélag.

Það er þetta, sem eg vildi benda á, að það verður að taka þetta stig áður en farið er að stofna til einokunar á þessari vöru.