22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Ráðherrann (H. H.):

Þegar hv. framsögum. (J. Ól.) var að segja, að hann hefði ekki haft peninga til að senda fyrirspurnarskeyti fyrir til Vesturheims, þá heyrði eg að einhver skaut því inn, að stjórnin hefði haft nóg fé til þessa, og skildi eg að þetta átti að merkja, að stjórnin hefði vanrækt eitthvað í þessu efni. Eg vil nú taka það fram, að það ætti að vera öllum skiljanlegt, að eftir minni skoðun á málinu væri það gersamlega þýðingarlaust, að fara nú að spyrjast fyrir um það, hvaða verð sé á steinolíu í Ameríku í dag, og það ættu allir að skilja, að þótt t. d. væri farið að síma til D. D. P. A. eða Standard Oil Co. og spyrjast fyrir um ástæður til verðhækkunarinnar hjá þessum félögum, þá mundi líklegast ekki upplýsast stórt sem á yrði bygt.. (Jón Ólafsson: Það hefir enginn verið að bregða stjórninni um neitt í þessu efni). Jú, eg heyrði vel hvað sagt var hér nálægt mér.

Háttv. framsögumaður sagði — eg held að hann neiti því þó ekki —, að það gagn hefðu menn þó af því, ef þessi einkasala hans kæmist á, að þá losnuðu kaupmenn úr viðjum þeim, sem nú binda þá við D. D. P. A., en eg sé ekki betur, en að þær viðjar leggist á þá aftur, svo framarlega sem einkasalan hættir eins og ráð er fyrir gert, áður en samningstími þeirra við félagið er út runninn, svo að hún yrði þar ekki nema hindrun í svip.

Annars skal eg minna á það, að í vetur létu ýmsir kaupmenn hér útsendara D. D. P. A., er hingað komu til viðtals við milliþinganefndina, skilja það á sér, að ef slík einkasölulög, sem þá var talað um, kæmust á, þá mundu þeir höfða mál gegn félaginu, og stefna því til að halda samningana við sig Hvort slíkt mál hefði unnist, veit eg ekki. en hitt veit eg, að þetta voru hótanir sem D. D. P. A. lagði töluvert mikið upp úr þá, og gerði þá deigari í tilboðum í svipinn.