22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Frams.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Hæstv. ráðh. (H. H.) hefir ekki heyrt hvað eg sagði, fyrir ys í deildinni. Eg sagði að. nefndin hefði ekki haft fé né tíma til að spyrjast fyrir, en eg nefndi ekki stjórnina. (Hannes Hafstein; Þetta er misskilningur, það var hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.), sem greip fram í fyrir frams.m.). — Nú, það skil eg. En svo talaði hæstv. ráðh. um að kaupmenn ætluðu að fara í mál við steinolíufélagið og heimta skaðabætur fyrir það, að þí væri með lögum meinað að halda samning við þá. Eg hefði aldrei trúað því, að hæstv. ráðh. (H. H.) segði slíkt, nema þá að gamni sínu. Eg held að ekki sé nokkur vafi á því að slíkt sé ætið skoðað, og verði að skoðast sem vis major.

Háttv. 2. þm. Rv. (J. J.) talaði snjalt erindi fyrir rökst. dagskrá um að skora á landsstjórnina að koma á laggirnar innlendu félagi til þess að keppa við D. D. P. A. Þar er nú fyrst þess að gæta, að dagskrá er engin lagaheimild, og í öðru lagi er það hégóminn einber, að hugsa sér slíkan félagsskap, því að þótt andvirði allra reita Íslendinga væru orðnar að gulli, og þótt hv. þm. væri sjálfur orðinn að gullkólfi og allir legðu í einn sjóð, þá væri það félag orðið gjaldþrota innan þriggja mánaða, ef það ætlaði sér í opna samkepni við Rockefeller og hans lið. Það væri óðs manns æði, beinn vegur til þess að eyðileggja sjálfan sig og landið. Hann talaði um það, að svo ill sé einokunin, að aldrei megi henni beita, hvernig sem ástatt er. Það má margt um þetta segja, en það er sitt hvað, að stofna til einokunar í gróða-skyni til þess að ná tekjum af kaupendunum, eða hitt, að landið taki sér sjálft einokunarvald, til þess að verja kaupendur gegn annari og verri einokun.

Eg má ekki drepa mann, en þó geta komið fyrir þau tilfelli, að mér sé vítalaust að gera það, ef eg á líf mitt eða annara að verja.

Eg má ekki heldur kippa í hárið á hv. 2. þm. Rv. (J. J.). (Jón Jónsson: Það er ómögulegt!), en ef eg þyrfti að bjarga honum frá druknun, mundi eg þó reyna hvað eg gæti til að festa fingur á þeim fáu hárum, sem hann hefir.

Eins er hér ástatt, þetta er neyðarvörn og annað ekki.