22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Frams.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg vil minnast á tvær setningar í ræðu háttv. þm. Sfjk. (V. G.).

Hann heldur svo fast við gaddavírs- og steinolíu-pantanir, að hann sér ekki annað. Lítum nú á hvernig þessar steinolíupantanir mundu borga sig. Það ætti hann að vita, að til þess að slík pöntun borgaði sig, þyrfti að panta ekki minna en þrjú þúsund tunnur. Stjórnin mælir svo fyrir, að pantanir yrðu kornnar fyrir 1. okt. og auglýsir það. Nú er litið komið af pöntunum fyrir 1. okt. Þá þarf nýja auglýsing og nýjar pantanir, og hvar lendir það. Það er dýr hver dagurinn að liggja í landi með mótorbátana. Til þess að sýna hver munur er á gaddavírapöntun og steinolíupöntun þegar fat og fat er pantað, skal eg benda á, að hér liggur nú skip frá New-York til D. D. P. A. fullfragtað og er fragtin kr. 3,40 fyrir tunnuna, en ef varan hefði verið send með skipum sameinaða gufuskipafélagsins, sem þó annars eru ódýr á fragt, þá hefði hún orðið 7 kr. á tunnuna. Það er munur á þessu, en þá hefir hann aldrei hugsað um. Annars er þessi gaddavírs-steinolíu-tillaga svo vaxin, að eg skil ekki að nokkur maður taki hana alvarlega.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. J.) þótti það ósamkvæmni að fella stj frv. en taka nú upp þetta sem hann áleit verra. Eg skil ekki annað en eitthvað hafi hlaupið í baklás í höfði honum, úr því að hann segir þetta, því að hann er þó annars skýr maður. Sér hann ekki muninn á því að selja einstökum mönnum heilt land til einokunar í gróða skyni og hinu, að stjórn landsins taki verzlunina í sínar hendur til þess að bjarga landsbúum og útvega þeim ódýra vöru? Stj.frv. er nú dautt, og eg vil ekki vera að rota dauðan hund, en það eitt vil eg segja, að á því var einn stór galli, sá að engin takmörk voru á verðinu. Þar var miðað við eina borg, sem einmitt er háð hringnum, en það átti að miða við einhvern þann stað eða land, sem er sölufrjálst. Eg get þessa að eins til að sýna hvað frv. er ómögulegt. En nægir voru aðrir gallar á því og sízt var það vandlegar hugsað en þetta frv.