23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Ráðherrann (H. H.):

Eg tók það skýrt fram við 2. umr., að mér þætti meira en vafasamt að þetta frv. gæti komið að notum. En eins og það nú er orðið eftir atkvæðagreiðsluna í kveld, eru líkurnar til þess enn þá miklu minni en áður, að svo megi verða, eftir að því hefir verið bætt við, að lögin skuli ekki gilda nema til ársloka 1913. Eg get væntanlega ekki siglt með frumvörp þingsins á konungsfund fyr en í lok septembermánaðar, og ef eg bæri hraðan á og mér tækist að fá Hans Hátign konunginn til þess að staðfesta frv. fljótlega, þá mætti í hæsta lagi gera ráð fyrir því, að þau kæmust í gildi einhverntíma í októbermánuði. Þá yrði að byrja eftirgrenslanir um innkaup og leita samninga líklega bæði hér í álfu og Vestanhafs, ef til vill víðsvegar í Ameríku, og því allsendis óhugsandi, að hægt væri að fara að beita þeim fyr en í ársbyrjun 1913. Þá er hér ekki nema um 1 ár að ræða, og þar sem stjórnin hefir samkv. frumv. ekki neitt einkaleyfi til sölu á steinolíu, heldur getur að eins fyrirskipað bann gegn aðflutningi, eftir að hún hefir ákveðið að nota heimildina, ?: eftir að hún hefir fengið ábyggileg og viðunandi tilboð, þá er hægur vandi fyrir hvaða félag sem er, að birgja landið upp til svo skamms tíma, áður en stjórnin getur komið með sínar birgðir, því að hér eru engin ákvæði um það, að ekki megi flytja inn áður hvað sem hver vill, þangað til stjórnin fer að nota sína innflutnings heimild.

Setjum nú svo, að landið keypti miklar birgðir og flytti þær hingað svo fljótt sem við yrði komið, þá ætti stjórnin á hættu, að kaupmenn eða félög, segjum t. d. D. D. P. A., sem búið væri að fá sér nægtir af olíu, undirbyði stjórnina, og seldi í svipinn olíu með lægra verð heldur en landið gæti boðið, á líkan hátt eins og Standard Oil Co. svo oft hefir gert, þegar einhver hefir boðið því heljarfélagi byrginn. Ekki er hægt að skylda neinn til að kaupa dýrara en kaupin bjóðast á eyrinni, og gæti því vel farið svo, að þegar þetta ár væri liðið sem lögin eiga að gilda, þá sæti landið uppi með það óselt, sem enn væri ólekið niður eða ekki enn gufað upp af olíunni. Þetta væri alveg sama sem að fleygja stórfé í sjóinn.

En setjum nú ennfremur svo, að í það gæti gengið lengri tími fyrir mér heldur en eg áðan gerði ráð fyrir, til að hugsa mig um hvernig eg ætti að fara að rökstyðja það fyrir Hans Hátign konunginum, að eg réði honum til að staðfesta frumvarp, sem eg sem ráðh. áliti öldungis þýðingarlaust og jafnvel hættulegt. Þá yrði einkaleyfistíminn enn þá styttri, ennþá hægra að hafa nægar birgðir fyrir til þess að undirbjóða með og ennþá sjálfsagðara, að lögin kæmu ekki að neinu gagni.

Eg á afarbágt með að trúa því, að hér séu margir háttv. þm., sem ekki sjá það, að þetta frumv. er ekki til neins góðs. Það bjargar aldrei landinu, en gæti stofnað landssjóðnum í stóra hættu, þótt eg hins vegar efist ekki um, að flutningsm. þess gangi gott eitt til að koma fram með það.