23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Lárus H. Bjarnason:

Eg stend ekki upp af því, að eg hafi mikla trú á því, að mótmæli mín gegn þessu frv. muni hrífa. Eg sé hvort sem er að 5 af þeim hv. þm, sem því eru mótfallnir, eru gengnir af fundi, hvort sem það hefir nú verið af nauðsyn eða ekki. Eg verð að segja að mig furðar á því, þegar um slíkt mál sem þetta er að ræða, að menn skuli hópast burt og hafa ekki þann styrk, að þora að greiða atkvæði, hvað sem vinir eða óvinir segja, þótt það sé að vísu ekki nýtt, að menn hverfi héðan úr deildinni frá atkvæðagreiðslu fyrir dragsúg og annað þess konar. Eg hefi verið varaður við því, að greiða atkvæði í þessu máli eins og eg ætla að gera, en eg fer ekki að því. Eg er á þeirri skoðun, að ef kjósendum er ekki þörf á nokkurn veginn nýtum þingm., þá sé þingm. ekki þörf á hverflyndum kjósendum.

Hver veit hve lengi þessi verðhækkun stendur? Um það verður ekkert sagt, meðan menn vita ekki hver ástæðan er til hennar og hvort verðhækkunin er almenn um allan heim eða ekki. Sé hún almenn þá stoðar ekki að spyrja á móti broddunum. Og þótt hún væri ekki almenn, þá hjálpaði frumv. samt ekki, sízt í bráðina. Slík heimild, sem hér um ræðir, er auðvitað gefin í því skyni að hún sé notuð, og treysti stjórnin sér ekki til að nota hana, er ekki til neins að veita hana. Annars vona eg að öll þessi verðhækkunar hræðsla batni jafn fljótt og nasakvefið, enda hefir ekki spurst að aðrar þjóðir hafi gripið til einokunar út af verðhækkuninni.

Sykur hefir hækkað úr 25 aurum upp í 34—35 aura pundið, kol hafa hækkað stórum og ýmsar aðrar vörur, án þess að menn hafi þotið upp til handa og fóta og gripið umhugsunarlaust til slíkra örþrifaráða, sem einokun er. En nú þegar olían hækkar í verði, ætlar alt af göflunum að ganga. Það er tæpast sæmilegt fyrir löggjafarvaldið að elta þannig hvern „goluþyt“. En hvað um það. Þótt allir verði með frumv., þá ætla eg að þora að greiða atkvæði á móti því.