23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Eggert Pálsson:

hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) sé móti þessu frumv. er eðlilegt og í samræmi við hans skoðun. En einkennilegt er það, að skoðanir hans og hæstv. rh. (H.H.) skuli falla saman í þessu máli. Það hefir ekki svo oft skeð á þessu þingi, og ástæður þeirra beggja geta tæpast verið hinar sömu. Þar sem verið er að hafa á móti því að frumv. skuli að eins ætlað að gilda til ársloka 1913, þá get eg varla skilið að slíkt sé í alvöru gert. Á árinu 1913 verður einmitt háð þing, og á því þingi eiga sæti allir sömu mennirnir sem á þessu þingi, og því engin hætta á að það ekki verði sama sinnis í þessu máli sem þetta þing. Menn verða vel að gá að því að hér er að eins um heimild fyrir stjórnina að ræða, en enga skyldu, og heimildina er vitaskuld ekki ætlast til að hún noti, nema nauðsyn krefji, og geri eg ráð fyrir að olían þurfi að stiga tilfinnanlega áður en til hennar er gripið; ekki vist að rétt væri til hennar að gripa, nema olían hækkaði enn meir en orðið er. Meiri hækkun á olíunni ríður mótorbátaútveginum að fullu, og fari svo má búast við að heil héruð leggist að meira eða minna leyti í eyði og fólkið flytji af landi burt. Hygg að sjálft frumv. muni sporna við verðhækkan, og ef það gerði það, þá væri gagnið af því mikið. Það má ef til vill segja að alt sem um þetta frumv. er sagt frá báðum hliðum sé spádómur, en rætist spádómurinn um enn frekari verðhækkun, sem enginn getur neitað að koma kunni á daginn, svo að olíutunnan hækki enn um 7 kr., sýnist áreiðanlegt að stór vandræði standi fyrir dyrum, að því er mótorbátaútveg landsmanna snertir, svo að fullkomin ástæða er fyrir þingið að taka hér eins fast og það getur í taumana.