23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Lárus H. Bjarnason:

Mér skildist hv. 2. þm, Rang. (E. P.) gefa í skyn, að skoðun minni eða hæstv. ráðh. (H.H.) hlytu að stýra einhverjar undarlegar hvatir, úr því að eg væri á sama máli og hæstv. ráðherra. Eg skal ekki deila við háttv. þingm. um það, hvort það komi oft fyrir, en sé það satt sem hann segir um það, þá væri það, að við hæstv. ráðherra fylgdumst hér að máli, einmitt sterk ástæða móti frumv. Eða heldur hann að eg sé farinn að elta hæstv. ráðh. út í bláinn eða ráðh. mig. Var það af fylgi við Björn Jónsson eða af fylgi Bj. Jónssonar við mig, að við urðum eftir atvikum sammála um bannlögin? Það fer illa á jafn vönduðum manni og hv. 2. þm. Rang. (E. P.) að kasta fram dylgjum, þó að menn sem oft eru ósammála, fylgjist að máli. Hv. þm. fylgir altaf sannfæringu sinni og ætti því að skilja það, að svo getur verið um fleiri, enda þarf hann ekki að ætla sér þá dul, að vekja upp grýlur, sem fæli mig frá að gera það í þetta skifti líka. Eg tek glaður á mig ábyrgðina af afstöðu minni og atkvæði í þessu máli.