26.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Frams.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eins og gefur að skilja, hallast eg helzt að þeim breyt.till., sem hér hafa komið fram, og vildi helzt óska, að frumv. gengi fram með þeim breytingum, sem þær fela í sér. En falli þær, þá liggur fyrir frumv. eins og það var samþykt í háttv. Ed. Það er að mínu áliti meingallað, og mun eg ekki greiða atkvæði með því, nema með því skilyrði, að hæstv. ráðherra lýsi yfir því, að hann vilji gæta þess, að veita þetta einkaleyfi engu félagi, sem gæti verið grein af D. D. P. A., stofnað undir yfirskyni innlends félagsskapar. Eg vona að hann geti lýst yfir því, að hann veiti engu félagi leyfið nema slíkar séu ekki ástæður. Í annan stað vildi eg vekja athygli hæstv ráðherra á því, að ef til þess kæmi að leyfið yrð selt í hendur sannarlega innlendu félagi, þá verði verðið ekki miðað við kauphallarverð í Hamborg, því að það er á valdi einokunarfélagsins.

Af hverju sem þessi verðhækkun á steinolíu hér stafar, á hún ekki rót sína að rekja til hækkunar í Ameríku. Mér er kunnugt um, að 18.—31. júlí í sumar fór verð á olíu daglœkkandi á kauphöllinni í New-York, en 15. ág. hækkar verðið hér, en hélt þó áfram að lækka þar. Þetta hefi eg úr markaðsskýrslum, sem hér eru í mínum höndum, og hverjum til sýnis, sem vill.

Þessi hækkun, sem hér hefir verið gerð, og eins í Skandinavíu og á Þýzkalandi, stafar því ekki af hœkkun á olíu í Ameríku. Ekki getur hún heldur stafað af fragthækkun. Fragtirnar eru ekki svo háar enn, eins og eg hefi áður skýrt frá, (að eins 3 kr. á fati frá New-York hingað á höfn).

Eg vil svo leyfa mér að vænta skýrs og ákveðins svars frá hæstv. ráðherra.