26.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Bjarni Jónsson:

Mér þykir það alleinkennilegt, nú þegar þingtíminn er liðinn, að menn séu að tefla refskák við hina deildina um eins mikið nauðsynjamál eins og þetta er. En í því trausti að hæstv. ráðh. (H. H.) og þingmönnum þyki nokkurs um vert að þessu máli sé ráðið heppilega til lykta, hefi eg leyft mér að koma fram með breyt.till. (Hannes Hafstein: Það er bara til að drepa frumv.). Eg treysti því, að hæstv. ráðherra og þingmenn vilji heldur lengja þingið fram eftir deginum, heldur en að tefla þessu máli í tvísýnu. Það má að sjálfsögðu fá bátinn til að bíða dálítið lengur. Úrslit þessa máls mega ekki vera undir því komin, að einhver „genius“ leysi þingmenn sem fyrst frá störfum sínum, eins og á Þingvöllum forðum.

Br.till. mín er fólgin í því, að setja inn aftur, það sem áður var samþykt hér í deildinni. Það er öllum vitanlegt að meiri hlutinn í deildinni er alveg frá hverfur því að veita nokkrum einstökum manni þetta einkaleyfi. En þar sem bæði eg og aðrir hafa borið þetta mál fram, þá höfum við gert það vegna

þess að hér er við öflugan verzlunarhring að eiga, og höfum við því álitið rétt að víkja frá almennum verzlunarreglum. En þó vildi enginn ganga svo langt, að mínu viti, að heimila stjórninni að selja þetta einkaleyfi í hendur félögum eða einstökum mönnum.

Eg sé að háttv. Ed. hefir sett inn „innlent félag“. Það er þó snögt um skárra að rétturinn sé veittur íslenzku félagi, því að með því móti er þó hægt að hafa tök á því í landinu, höfða mál á móti því, ef þörf gerist, sem ekki er hægt á móti dönskum, enskum eða þýzkum einkaleyfishöfum. En þyki mönnum þetta viðurhlutamikið, þá má bæta úr því, með því að samþykkja varatillögu mína um að fella í burtu orðin: „og hún má einnig fram selja í þeirra hendur heimild sina og einkarétt til olíuinnflutnings eftir lögum þessum“. Þá stendur eftir Í greininni: „Stjórninni er heimilt að fela einstökum mönnum eða hlutafélögum innlendum að standa fyrir kaupum og sölu á olíunni, með þeim skilyrðum, er hún telur hyggileg og nauðsynleg, þó ekki lengur en 5 ár“. Þá er aðalatriðinu náð. Grundvallarreglan verður þá óbreytt og sama, sem Nd. vildi vera láta, að landið sjálft hefði réttinn.

Eg hygg að það geti orkað tvímælis, hversu tryggilegt það sé að ákveða að félagið skuli vera íslenzkt. Eg býst við að menn reki minni til þess að það er ekki langt síðan að landið var gert að lepp. Það er alt af hægt að fá lepp, og ekki nema klukkutíma verk að breyta erlendu félagi í innlent félag. Þess vegna þótti mér vænt um spurningu háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) til ráðh. (H. H.), hvort hann vildi ekki varast að veita einkaréttinn nokkru innlendu félagi, sem kynni að vera stofnað til að dylja yfir erlent félag. Eg skal játa það, að mér þætti gott að heyra skýrari svör frá hæstv. rh. (H H ) til þess að friða mig og þjóðina í heild sinni, enda getur það ekki annað en verið holt fyrir stjórnina að hann svari skýrt og skorinort, að það geti ekki komið til mála að veita nokkru félagi þennan rétt áður en nákvæmlega sé rannsakað, hvort svik séu í tafli. Það getur verið að stjórnin segi sem svo, að það sé óþarfi að lýsa yfir þessu, þar sem allir beri fult traust til hennar. En það er samt vorkunn þó menn vilji Fá svar, því að hættan er hér nærri dyrum.

Eg býst við að menn vilji að minsta kosti samþykkja varatillögu mína, mér sýnist háttv. Nd. lítt sæmandi að gera það ekki. Ef hæstv. ráðherra (H. H.) vill lengja þingið til kl. 6 í dag, verður nógur tími til að afgreiða málið. Hér ekki til meira mælst en allir eiga heimtingu á í svo mikilvægu máli, og eg trúi ekki að nokkur sé móti því. Það komast allir jafn snemma heim fyrir það.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekara um þetta, en vona að eg fái greið svör frá hæstv. ráðberra (H. H ).