26.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Björn Kristjánsson:

Eg hélt ekki að það þyrfti að fara að ræða þetta mál aftur, það var búið að ganga svo frá því, að við það hefði mátt una. Eg sé ekki betur en að hér sé verið að nauðga deildinni að óþörfu með sama málinu, því að þessi steinolíuverðhækkun er vitanlega ekki nema bráðabyrgðahækkun. Það er hrein furða, hvað mikið kapp er lagt á þetta mál.

Nú er einn þm. hér úr deildinni farinn heim, og þegar háttv. Ed. veit það, að einn af þeim mönnum, sem eru þessu þessu máli andstæðir, er farinn í burtu, þá sér hún ástæðu til að vekja frumv. upp, að vísu í nokkru öðru formi, en ekki betra. Það er eins og þingmönnum finnist það bráðnauðsynlegt að þetta mál gangi fram, ef ekki í þessu formi, þá í hinu, þrátt fyrir það þó bent hafi verið á, að engin önnur þjóð fer eins að í þessu efni, þó hún lifi undir sömu kjörum, það er eins og þingið áliti að það sé óumflýjanlegt að stjórnin hafi einhverja verzlun með höndum. Eg skoða það einmitt hættulegt þegar litið er til landsstærðar, fámennis og ístöðuleysis landsmanna. Ekki hafa Norðmenn, Svíar, Þjóðverjar eða Englendingar kallað saman þingið hjá sér út af þessu máli, og ekki hefir stjórn þeirra séð ástæðu til að ná sér í einokun til að bjarga landinu.

Þetta liggur í því, sem allir ættu að vita, að hættan er ekki nema í bráðabili, og eftir því sem háttv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) hefir upplýst, þá er olíuverðið nú þegar orðið lægra en það var fyrir nokkrum dögum í Vesturheimi. Eg hygg því að allir háttv. þm. geti farið rólegir heim til sín að þessu sinni, og eg veit að kaupmönnum þessa lands er vel treystandi til þess, að útvega sæmilegt verð á olíunni, svo að hér þarf enga einokun. Eg mun því — og það þótt eg sé þm. fyrir kjördæmi sem hefir mikinn mótorbátaútveg — greiða atkv. á móti þessu frv. og sjá hvað líður fram til næsta þings. Reynist það þá, að slíkra laga sé þörf, þá mun eg líklega vera með því, að þau verði samin, ef af því ekki getur stafað nein hætta frá öðrum hliðum, og ef miklu tryggilegar er um búið en nú er gert.

Eg hefi þegar áður bent á það, að ef vér ættum að stofna til einokunar, jafn smáir og vér erum, þá yrði að búa miklu betur um hnútana, en hér er gert. Þá væri nauðsynlegt að sem flestir liðir mannfélagsins yrðu þar við riðnir, bæði sýslunefndir og bæjarstjórnir, bankar og landsstjórn, svo eftirlitið með því, að einokunin yrði ekki vanbrúkuð, kæmi frá sem flestum hliðum, að öðrum kosti væri það ekki hættulaust. En hitt er hættulaust, að láta málið bíða næsta þings, eg þykist hér um bil geta fullyrt að þjóðin líður ekkert við það. Eg held að hér liggi eitthvað annað á bak við, en að vernda þjóðina, því að eg hefi ekki heyrt þess getið hingað til, að þingið hafi skift sér mikið af því, þótt einhver vara hafi hækkað í verði í nokkra daga eða vikur. Matvara hefir t. d. hækkað ekki alls fyrir löngu um 3—4 kr. á tunnuna, sem stafaði af samskonar gróðabralli í Vesturheimi (hveitihring) og datt engum þá í hug að leggja á hana einokun. Nei, það er eitthvað hulið hér á bak við það, hvernig menn hafa beitt sér í þessu máli, og sérstaklega við þessa aðferð, að fara núna, rétt í þinglokin, að halda svo að segja nýtt þing um þetta, eftir það að enginn þm. í Nd. vissi annað en að öllum þingstörfum væri lokið, öðrum en að slíta þingi. Eg vona nú svo góðs af þinginu, að menn leggi niður allan hita og kapp um þetta mál,og sjái til hvort ekki er hægt að skapa eðlilega samkepni, og reynist það ekki, þá búi menn út lög, sem séu full tryggileg fyrir þjóðina.