22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

35. mál, eftirlit með síldveiðum

Flutningsm. (Guðlaugur Guðmundsson):

Eg verð að fara fljótt yfir sögu, því mjög er liðið á fundartímann. Vona eg að hv. þm. hafi kynt sér skjöl þau, sem lögð hafa verið fram á lestrarsal þingsins viðvíkjandi þessu máli.

Eg skal fyrst gera stutta grein fyrir hvernig þessari veiði er háttað. Hún stendur venjulega yfir frá 20. júlí til 20. sept. Um annan tíma gengur hafsíldin ekki, eða hefir ekki gert það hin síðustu ár, en á þessum tíma kemur hún oftast mjög reglulega. Göngur koma vestan úr höfum upp undir land vestanvert við Skaga, og fara austur með landi, alt austur fyrir Langanes. Veiðin er stunduð á takmörkuðu svæði um 6—8 vikna tíma. Stundum byrjar hún ekki fyr en snemma í ágúst og er stundum lokið fyrri hluta september-mánaðar. Veiði þessa stundar mesti fjöldi skipa og hefir hún aukist mikið síðan farið var að nota herpinætur. Árið 1903 voru, að mig minnir, fluttar út tæpar 30.000 tunnur síldar, en árið 1907 203.000 tunnur. Síðan hefir útflutningur farið heldur rénandi, því 1907 offyltist markaðurinn og síld lækkaði í verði.

Síldin gengur venjulega að landinu í þéttum torfum, gengur oft mjög nærri landi, og það er iðulega svo, að síldin er ekki nema innan landhelgissvæðisins. Aðal-veiðistöðvarnar eru á svæðinu frá Skaga að vestan og austur fyrir Tjörnes og það svæði er, eins og menn vita, ekki mjög stórt, og það er því augljóst að slíkur aragrúi útlendra veiðiskipa með uppgripaveiðarfærum sem á þessar stöðvar safnast muni stórum spilla veiði og styggja göngur, ef hann fær eftirlitslaust að vaða yfir landhelgina.

Síldveiði á þessum slóðum hafa, að undanförnu, mest stundað útlendingar, en á tveim síðustu árum hefir talsvert aukizt veiði innlendra manna. Síðustu árin hafa og nokkur Faxaflóagufuskipin látið af þorskveiðum á sumrum og stundað síldveiði norður þar við góðan árangur. Landhelgisbrot útlendinga spilla mjög fyrir veiðum þessara innlendu skipa. Það er skiljanlegt, að svo mikill fjöldi útlendra skipa muni þurfa eftirlits, en hins vegar og skiljanlegt, að landhelgisgæzlu verður ekki komið við til fulls með því fyrirkomulagi, sem verið hefir hingað til. Það hefir lítið að þýða þótt varðskipið sé þar að eins nokkra daga og skjótist stöku sinnum út á veiðistöðvarnar. Hér þarf fasta og stöðuga gæzlu.

Í fyrra sumar var rík gremja manna meðal yfir ágangi hinna útlendu skipa. Varðskipið kom þar ekki og þetta svæði mátti heita algerlega varnarlaust.

Strandgæzlan var aðallega í því fólgin að aðstoðarlögreglustjórinn á Siglufirði lét við og við fara, og fór sjálfur með síldarskipum út á veiðistöðvarnar til þess að gá að, hvort útlend skip væru innan landhelgi, og hafa með þeim hætti nokkur skip orðið sektuð. Annars eru innlend skip lítt fáanleg til þess að fara í slíkar ferðir, enda geta ekki né mega, því að svo getur farið, að skipið tapi stórfé á því. Eru til þess mörg dæmi, að veiðiskip hafi í einu „kasti“ veitt um 500—1000 tunnur síldar, og hafa selt við bryggjusporð fyrir minst 4 kr. tunnuna. Er þá auðsætt, að örðugt muni veita að fá þessi skip til þess, að tefja sig frá veiðum, enda hefir reynst svo.

Af þessum ástæðum vona eg að allir sjái, hve nauðsynlegt er að auka eftirlitið og að það muni að mun batna við það fyrirkomulag, sem farið er fram á í skjölum þeim, er hér liggja fyrir. Því er svo háttað, að síldin þolir ekki að geymast í skipunum nema fáar klukkustundir. Er því engin leið, að skipin geti flutt síldina til Noregs — en þaðan eru flest hin útlendu skip. — Verða því að flytja síldina strax í land, enda hafa og flestir fasta viðskiftamenn í landi til viðtöku síldinni. Ef gæzla væri til nokkurrar hlítar, mundu hin útlendu skip ekki leyfa sér að fremja brot, og er það aðalatriðið í mínum augum. Þar með yrði og studdur sá vísir til síldveiða innlendra skipa, sem nú er kominn svo vel af stað.

Eg gat þess, að í fyrra hafi verð stöku sinnum fengin síldveiðiskip til eftirlits. Var það oftast skip héðan sunnan að, sem til fékst, botnvörpungurinn Marz; einu sinni var þó Eyjafjarðarbáturinn fenginn til hringferðar. En þá er því líkast sem skipin hafi fengið einhvern pata af fyrirhugaðri ferð hans, því að þegar kom á Skjálfanda lá fjöldi skipa rétt utan við landhelgislínuna. Var haldið, að einhver hefði varað þau við bátnum. Það er skiljanlegt, að skipstjórarnir fái mikla freisting til þess að brjóta, þegar síldartorfurnar eru innan línunnar, en eftirlitið hins vegar ekkert eða nálega ekkert, sem þeir og vita.

Eg býst við því, að nú í ár verði lagt eins mikið kapp á veiðina og lagt var 1907. Þá voru snerpinætur nýtilkomnar, höfðu komið 1905 fyrst til notkunar hérlendis. Var þá, 1907, hin mesta uppgripaveiði, og mun það ár síldveiði hafa náð hámarki. En síðan féll síld í verði á útlendum mörkuðum og hefir jafnan rénað síðan. Nú má búast við því, að sett sé undir þennan leka offylling markaðarins, þar sem komið hefir nú verið á fót verksmiðjum til þess að hagnýta síldina til þess að gera úr lýsi, fóður, áburð o. fl. Sömuleiðis mun það og bæta markaðinn að síldarmat hefir verið fyrirskipað.

Hver annar árangur en bættar varnir og fækkun landhelgisbrota yrði að því fyrirkomulagi, sem hér er farið fram á, að haft sé, verður vitanlega ekki sagt um fyrirfram. Hvort landssjóður fengi af því tekjur fyrir sektir o. fl. verður ekki um spáð.

Í fyrra sumar hafði landssjóður upp úr sektum í þeim fáu eftirlitsferðum, sem eg gat um áðan, 5.274 kr. og 50 aura. Af því mætti ef til vill ráða að ekki ykist kostnaður fyrir landssjóð, þótt eftirlit væri aukið.

Stjórnarráðið hefir nú til umráða litla upphæð til þess að hafa strandgæzlu úr landi. Hefir það fé mest verið notað hér við Faxaflóa, þannig að bátur úr Keflavík hefir séð um eftirlitið. Slíkur bátur getur vitanlega ekki handsamað skip, en mælingar getur hann gert og gefið skýrslur fyrir rétti.

Þetta þyrfti nyrðra að vera með föstu skipulagi, og vænti eg að stjórnin sjái ráð til þess að gera eftirlitið effectivt. Innlendir útgerðarmenn kvarta mjög yfir því, hve útlend skip spilli veiðinni, og rétt nýlega hefi eg fengið símskeyti frá „Fiskveiðafélagi Norðurlands“, og er þar sagt að útlend skip baki hérlendum veiðiskipum stórtjón. Þetta veit eg að er satt.

Útlendu skipin eru flest stærri, hraðskreiðari og betur útbúin en hin innlendu.

Þessir menn hafa lagt það til, að tekið verði tilboði því, sem hér liggur fyrir.

Stjórnarráðið hefir haft það til athugunar, en hefir talið varhugavert að taka því, í öllu falli án heimildar frá þinginu. —

Ef þetta fyrirkomulag yrði tekið upp, býst eg sem sagt við, að gagnið verði meira en þótt varðskipið láti fáeinum sinnum sjá sig rétt í svip, enda muni ekki verulega auka útgjöld landssjóðs.