22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

35. mál, eftirlit með síldveiðum

Bjarni Jónsson:

Eg efast ekki um, að það sé rétt hermt hjá hv. tillögumanni, að mikil þörf sé á að auka strandgæzlu nyrðra. En þetta mál gæti rifjað upp fyrir mönnum ýmislegt, sem gott væri að athuga. T. d. heyrist nú sagt, að bátur sá, sem oss var sagður sendur, Íslendingum, sé nú hafður við Grænland. Nú höfum vér ákveðið tilboð um strandgæzlu, og þykir mér vænt um, að það skuli fram komið, er og jafnan betra hjá sjálfum sér að taka en sinn bróður að biðja. Það var enn gott að heyra hjá hv. tillögumanni, að hann teldi strandgæzlu hér lögreglumál, hvort sem höfð væri með þeim hætti, að skipin væru tekin og færð lögreglustjóra, eða þá hafður væri sérstakur lögreglustjóri á gæzluskipinu, enda væri og heimskulegt að halda því fram, að landhelgin heyrði ekki landinu til. Hefi eg og heyrt mörg dæmi þess, að lögreglustjórar hafi sjálfir farið út og tekið skip, t. d. í Vestmannaeyjum og sömuleiðis um Steingrím Jónsson í Húsavík, er nærri var orðinn fyrir útreið sem Guðmundur Björnsson varð fyrir í fyrra.

En það sem mig undrar er hitt, að ekki skuli koma fram ákveðin tillaga um áðurgreint tilboð. Mun þetta koma til af gleymsku eða vangá. Mundi eg því vera samþykkur þeirri tillögu, ef fram kæmi, að frestað væri málinu og þetta lagað, heldur en að nú þegar væri gert út um þetta.

Ella stóð eg upp bæði vegna þess að mér þótti vænt um, að slík tillaga kom fram, og eins þess vegna, að mér þótti einkanlega ástæða til þess að spyrja, hví ógleymt var látið að hafa tillöguna ákveðna um það, hversu taka skyldi tilboði því, er hér liggur frammi um þetta.

Að öðru leyti hefi eg ekki að athuga um þessa tillögu. Óska eg að eins, að málinu verði frestað og tillögunni komið í samræmi við það, sem nú hefi eg sagt.