22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

35. mál, eftirlit með síldveiðum

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg þarf ekki að mæla mörg orð; það, sem eg vildi sagt hafa, mundi hníga flest á sömu lund sem hjá hinum háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.).

Það er vafalaust rétt, að vér Íslendingar höfum yfirleitt heimild til að halda uppi lögreglu innan landhelgi vorrar, en gæta verðum vér þess þó, að vér komum ekki bága við þær alþjóðareglur, sem gilda um fiskveiðar yfirleitt. Þess vegna hygg eg, að athuga þurfi tillögu þessa mjög vel og að það verði að gera í nefnd. Tillagan er harla óákveðin og lítt leiðbeinandi fyrir stjórnina. Athugasemdir og skýringar háttv. flutningsmanns (G. G.) eru sjálfsagt góðar og má sjálfsagt taka verulegt tillit til þeirra, en það er æskilegt að fá þær prentaðar í nefndaráliti.

Í öðru lagi þarf að athuga hvar taka á hinn aukna kostnað, sem af þessum ráðstöfunum hlýtur að leiða, því að þær 1.500 kr., sem veittar eru á fjárlögunum í þessu skyni, ná ekki langt.

Það er mikið rétt hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að til stjórnarinnar hefir borist málaleitun frá einstökum manni þess efnis, að hann tækist á hendur landhelgisgæzlu á þessum stöðvum, og í því skyni héldi úti smáskipi, gegn því að honum yrði borgaður ákveðinn hluti þeirra sekta, er landssjóði ynnist við þessar auknu varnir. Þetta gat stjórnin ekki samþykt, vegna þess að hún áleit ekki að hún hefði heimild til þess að ráðstafa sektarfénu á þann veg án samþykkis fjárveitingarvaldsins. Yfirleitt eru hér ýmisleg atriði, sem þurfa ítarlegrar athugunar við, og vildi eg því eindregið leggja til, að málið yrði sett í nefnd.