27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

35. mál, eftirlit með síldveiðum

Bjarni Jónsson:

Viðvíkjandi þeirri ró og spekt, sem hæstv. ráðherra (H. H.) var að tala um, að nú væri fyrir Norðurlandi, hefir hv. frams m. (G. G.) getið um, af hvaða ástæðum það væri, svo eg get sparað mér að tala um það. Eg get ekki heldur séð, að málaleitanir Norðmanna og þessi þingsályktunartill. geti staðið í nokkru sambandi hvað við annað, því að þingsáltill. fer að eins fram á strangara eftirlit með veiðum í landhelgi okkar, og að gefa öðrum þjóðum rétt til að fiska í landhelgi, hygg eg að engum geti til hugar komið. Eg er samdóma hæstv. ráðh. (H. H.) í því, að ákvæði laganna 1911, sem skylda síldveiðaskipin til að hafa báta sína innanborðs í landhelgi, eru alt of hörð, og eg hafði jafnvel hugsað mér að koma með frumv. á þinginu í þá átt að afnema þetta ákvæði, en það aftraði mér, að eg sá að þetta atriði gætum við notað sem eftirgjafaratriði í samningum okkar við Norðmenn. Eg hefi gert margar fyrirspurnir til Norðmanna, hvaða ívilnanir þeir vildu gera okkur í tollum á íslenzku kjöti og hestum, ef við leituðum samninga við þá. Eg fékk þau svör, að við yrðum að láta í ljósi hvað við byðum á móti. Kváðust þeir helzt vilja fá leyfi til að veiða í landhelgi okkar, en það sagði eg að gæti ekki komið til nokkurra mála — það væri alt of mikil ívilnun til þess að við gætum gengið að því. Það sem tók skarið af, að eg ekki bar fram frv. um breytingu á lögunum frá 1911, var að eg sá þingsál.till. hæstv. ráðh. (H.H.) og sá að þessi ákvæði gátu orðið vopn í okkar hendi. En fari nú svo, að þetta ákvæði, sem yfirmaður danska varðskipsins telur svo mikilsvert, verði numið úr lögum, þá er það ljóst, að þörf er á enn þá strangara eftirliti og því ber að leggja enn þá meiri áherzlu á mína brt. en áður — því fremur þarf sérstakt skip til þess að vera á sífeldu flökti um veiðistöðvarnar. Eg get frætt hæstv. rh. (H. H.) um það, að þetta er aðeins eftirlit af landi, auðvitað er ekki meiningin að skipið standi í nausti — það á að vera á floti. Úr orðum hans um „spekúlantsskip“, get eg ekki gert mikið. Í br.till. minni er að eins lagt til, að verja megi alt að helmingi sektafjár þess, sem landssjóði bætist við þessa ráðstöfun, til eftirlitsins. Þar er alt lagt í stjórnarinnar hönd, hún getur ákveðið hversu mikið útgerðarmaður skipsins á að fá. Hér er að eins um heimild að ræða. Líka skal eg geta þess, að öll strandgæzla alstaðar um heim mun vera til þess, að hindra það, að lögbrot verði framin og ná í alla þá, er brjóta lögin. Hér getur því ekki verið um neina „spekulation“ að ræða. Og eg hygg að það sé ekki nema í einu einstöku smáríki, að ekki megi verja nema tiltekinni upphæð af kolum til strandgæzlu — og ekki þótti því ríkinu, sem hefir gert „Fálkann“ út, það frágangssök að taka á móti ákveðnum hluta sektafjárins sem borgun fyrir fyrirhöfn sína. Þegar við tókum þennan sektafjárhluta af þeim, þá var það kallað samningsrof, bæði af hæstv. ráðherra (H. H.), sem var að tala um „spekulant“-skipið, og Dönum.

Eg get ekki skilið það, að nokkrar erlendar þjóðir taki það illa upp þótt við reynum að fyrirbyggja það, að vaðið sé ofan í landhelgislög okkar. Það er heldur ekki rétt hjá hæstv. ráðh. (H. H.), að sérstakan lærðan herforingja mundi þurfa til þess að vera fyrir þessu skipi. Þess þarf að eins við á eftirlitsskipum utan landhelginnar, en til þess er ekki ætlast í brt. minni. Lærðan herforingja þarf ekki einu sinni til gæzlu utan landhelgi. Því að í samningnum frá 1903, milli Englendinga og Danakonunga stendur í XXVI. grein:

„Skip úr herskipaflota hinna tignu samningsaðila skulu hafa tilsjón með fiskveiðunum; fyrir Danmörku má nota til þess skip, sem eru eign ríkisins, er skipstjórar þeirra eru sérstaklega kvaddir til þess starfa“.

Danakonungur er konungur Íslands og mundi því mega neyta þessarar undanþágu fyrir ríkið Ísland. Er því svo langt frá að vér þurfum herforingja til þess að gæta landhelginnar, að stjórn Íslands og konungur mundi geta falið íslenzku skipi og íslenzkum mönnum að hafa hið tilskilda eftirlit fyrir utan landhelgina. Og þótt aðrar þjóðir hafi eigi gengið að þessum samningi, svo sem hann heimilar, þá er eg fullviss að aðrar þjóðir mundu ekki fara að kvarta yfir því, sem Englendingar létu sér lynda. En áður en eg sezt niður og hæstv. ráðh. (H. H.) getur farið að traðka á moldum mínum, þá vildi eg beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann áliti ekki, að Íslendingar hafi fullan rétt til þess að halda uppi gæzlu á landhelgi sinni, óbundnir af öllum öðrum þjóðum. Sezt eg svo niður með þeirri meðvitund að mega ekki segja meira í þessu máli í dag.