27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

35. mál, eftirlit með síldveiðum

Ráðherrann (H. H.):

Eg sé ekki til neins, að vera að tefja tímann með því, að vera að tala um þennan samning sem háttv. þm. Dal. (B. J.) gat um. Samningurinn er alls ekki um fyrirkomulag landhelgisvarna, heldur einmitt um tilhögun á fiskveiðum þegna hins ríkisins utan landhelgi á hafinu umhverfis Færeyjar og Ísland. Auðvitað hefir íslenzkt lögregluvald í sjálfu sér rétt til þess að halda uppi, lögum landsins á landhelgissvæðinu. En til þess að geta gert það svo gagn sé í, svo lögbrjótarnir verði ekki lögreglunni yfirsterkari, þarf að beita þeim vopnum sem öðrum en sjóliðsforingjum er ekki trúað fyrir með að fara. Það er og alþjóðatízka að ríkin vilja ekki beygja sig fyrir öðrum mælingum á landhelgistakmörkum en þeim, sem fengnar eru af mönnum er hafa sérstaklega til þess lært í sjóliði. Norðmenn hafa reyndar unað við það að undanförnu, að norsk skip hafi verið sektuð eftir mælingum og vitnisburði utansjóliðsmanna, en eg tel öldugis víst að Englendingar mundu ekki gera það og óvíst hve lengi Norðmenn gera það.

Hv. þm. Dal. (B. J.) sagði að búið væri að upplýsa, hvers vegna sagt hefði verið að alt væri með spekt á Siglufirði. En það er ekki einungis á Siglufirði að alt er með spekt, heldur á öllu landhelgissvæðinu norður þar. — Það er alveg rétt að því meiri þörf er á eftirliti, ef lögin frá 1911 eru feld úr gildi og skipunum er heimilað, að hafa bátana úti. En samt sem áður tel eg ekki rétt að vera að herða á lögunum nú, því að með því gætum vér spilt væntanlegum samningaumleitunum við Norðmenn. Eg vil því leyfa mér aftur að leggja það til að málinu sé frestað, þangað til nefnd hefir verið sett til þess, að athuga hvort nokkuð og þá hvað megi bjóða af vorri hálfu í þessu samningamáli.