26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

34. mál, eyðing refa

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Þessi till. er nýmæli hér á þinginu. Ástæðan til þess að hún er fram komin er sú, að á síðasta sýslunefndarfundi Árnesinga kom fram sú uppástunga, að skora á þingið að búa til lög um útrýming á refum úr landinu. Okkur þingm. var svo falið að flytja þetta mál, en við nánari athugun sá eg, að eigi mundi tiltækilegt að þessu sinni og engin tök á að búa til frumv. til laga þar að lútandi. Áleit að betur þyrfti að rannsaka málið, og valdi því tillöguleiðina, að skora á landstjórnina að safna ábyggilegum skýrslum um málið og rannsaka það.

Hér er um stórmál að ræða, sem nauðsynlegt er að vel sé athugað, áður en teknar eru ákvarðanir um það.

Þegar litið er á málið í heild, verður ekki annað sagt en að refar séu hrein landplága, því að auk þess tjóns sem fjáreigendur bíða af dýrbiti, hafa refaveiðar mikinn kostnað í för með sér. Þessir 2 stóru útgjaldaliðir, sem refarnir orsaka hér hjá okkur, eru þungir og mjög tilfinnanlegir.

Till. orðar að skora á landstjórnina að safna skýrslum um það tjón, sem fjáreigendur verða fyrir af dýrbiti Ef til vill verður það nokkrum erfiðleikum bundið að fá skýrslur um það tjón, því þó menn viti nokkurn veginn hvað mikið bízt í heimahögum, þá er hitt miklu meira, sem bitið er í afréttum, og naumast hægt að fá nákvæmar skýrslur um það. Kunnugir menn segja, að vanheimtur á lömbum stafi mestmegnis af dýrbiti á afréttum.

Hægara verður að komast fyrir, hvað miklu er varið til útrýmingar refa. En heyrt hefi eg menn hafa á orði, að sá kostnaður sé meiri en tiltekið er í sveitarreikningunum. En þegar litið er á þann kostnað, sem refaveiðar hafa í för með sér samkvæmt skýrslum um útgjöld sveitasjóða, þá kemur það í ljós að sá kostnaður er feikimikill.

Árið 1906—07 var kostnaðurinn við refaveiðar sem hér segir:

Á Suðurlandi 1.102 kr.

— Vesturlandi 2.963 —

— Norðurlandi 1.953 —

— Austurlandi 988 —

Samanlagt 7.006 kr.

Árið 1907—08 nam kostnaðurinn enn meiru:

Á Suðurlandi 1.393 kr.

— Vesturlandi 3.585 —

— Norðurlandi 2.285 —

— Austurlandi 1.407 —

Samanlagt 8.670 kr.

Þegar maður lítur á kostnaðinn í einstökum sýslum, verður munurinn afarmikill. Mestur var kostnaðurinn þetta ár 1907—08 í þessum sýslum:

Í Mýrasýslu kr. 952

— Árnessýslu — 710

— Snæfellsness- og Hnappadalssýslu — 681

— Norður-Þingeyjarsýslu — 668

— Norður-Múlasýslu — 645

— Suður-Þingeyjarsýslu — 525

Eins er kostnaðurinn mjög misjafn í einstökum hreppum. Sumir hreppar verða mjög hart úti. Þetta sama ár var refaveiðakostnaður í tveimur hreppum í Mýrasýslu 257 kr. í hvorum. Í Biskupstungnahreppi í Árnessýslu 223 kr. og í Gnúpverjahreppi í sömu sýslu, frernur litlum hreppi, 186 kr.

Af þessu má sjá, að refakostnaður er víða mjög mikill. Þó er víst, að víða er þessu fé alveg í sjóinn kastað; árangurinn sáralítill og sumstaðar virðist svo sem mjög sé kastað höndunum til útrýmingarinnar, bæði eitrunar og skota.

Það er vitaskuld vandi úr því að leysa, hvort hægt sé að útrýma refum. Þess eru þó dæmi, að sumstaðar, þar sem mikið hefir kveðið að dýrbiti, hefir tekist að taka fyrir það að miklum mun fyrir ötula framgöngu einstakra manna eða hreppsfélaga. En oft hefir að því orðið skammgóður vermir og dýrbitið aukist aftur, því er ekki að neita. — Þegar Árni sýslumaður Gíslason flutti sig úr Skaftafellssýslu til Krísuvíkur, flutti hann með sér margt fé, um 1200 fjár. En er hann var sestur að í Krísuvík, eyddist fyrir honum á næstu árum nálega helmingurinn af fé því, er hann hafði komið með þangað og flest af dýrbiti. Þá tók hann sig til og reyndi að útrýma refunum. Þetta bar svo góðan árangur, að við dauða hans kvað nálega ekkert að dýrbiti þar um slóðir. Þannig hefir dugnaður einstakra manna eða hreppa borið mikinn árangur. En sumstaðar hefir eyðing refanna verið trössuð og ekki náð tilgangi sínum. Þó virðast þessi dæmi benda á það, að ef til vill megi útrýma refum alfarið hér á landi. En fyrst af öllu er að rannsaka hversu mikið tjón hlýzt af dýrbiti og hve mikið muni kosta að útrýma tóunum. Að því miðar tillaga mín.

Vona eg að menn taki tillögunni vel. Hér er um mikla nauðsyn að ræða fyrir landbúnaðinn Hins vegar ekki gengið á rétt einstakra manna þótt tóunni væri útrýmt, því að þeir eru sárfáir, er refaskot stunda eða hafa atvinnu af refaveiðum hér á landi.