26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

34. mál, eyðing refa

Benedikt Sveinsson:

Eg er líkrar skoðunar um þetta mál og háttv. 1. þm. Rang. (E. J.). Eg er hræddur um að tillagan sé nauða-gagnslítil. Allir eru á einu máli um það, að ákjósanlegt væri að eyða öllum refum hér. En þó að stjórninni væri falið að safna skýrslum um tjón af dýrbít og hvað kosta muni að sálga öllum refkeylum í landinu, þá er hætt við að lítill rekspölur kæmist á það mál. Það er ekkert nýmæli, að gerðar séu ráðstafanir til þess að eyða dýrbít. Eg veit ekki betur en landsmenn hafi verið í sífeldri baráttu við þann varg síðan landið bygðist.

Á þjóðveldistímanum voru lög um eyðing refa. Þjóðin hefir glímt við skolla í 1000 ár.

Á síðari tímum hafa verið settar reglugerðir um þetta efni í hverri sýslu, sniðnar eftir staðháttum hvers héraðs og miðaðar við 1000 ára gamla reynslu manna um þessi efni. Hvervetna hvílir sú skylda á mönnum að leita að grenjum og reyna að vinna þau. Menn eitra fyrir refi og bræla þá inni, liggja úti og skjóta. Því mun gert alt, sem nokkurn veginn er unt til eyðingar refum.

Í annan stað finst mér það vera að reisa stjórninni hurðarás um öxl að safna sér skýrslum um það, sem enginn maður veit né getur vitað!

Margt fé ferst uppi á heiðum og afréttum, og yrði dýr leit að rannsaka dauðamein hvers gemsans, þótt hægt væri að finna af honum beinagrindina. (Sigurður Sigurðsson: Dettur engum í hug). Þá veit eg ekki hver tilgangur tillögunnar er.

Það er og ætlun sumra, að refar hafi komist hingað og komi með hafísum, og er það líklega rétt; menn tala um ísatófur, sem stundum gangi á land. Og víst er um það, að í fyrstunni hafa refar komist til landsins á þann hátt. Það mundi því lítið stoða, þótt stjórnin hefði þann undramátt að geta metið til fjár hvert melrakka-líf, þeirra sem nú eru í landinu.

Bæði þessi atriði tillögunnar eru því jafn-óframkvæmanleg: að rannsaka til hlítar tjón af dýrbít og gera sennilega áætlun um, hvað alger útrýming refa muni kosta.